Framboðsbrölt

Það er við hæfi í þessu fyrsta bloggi að útskýra hvernig framboð mitt fyrir Bjarta framtíð kom til.

Þegar Guðmundur og Heiða stigu fram og tilkynntu um stofnun nýs flokks sperrti ég eyrun. Ég hef aldrei verið flokksbundin þótt ég hafi reyndar skráð mig tímabundið í nokkra flokka til að mega kjósa í prófkjöri. Ég hef í gegnum tíðina kosið marga flokka og oft hefur fólkið í framboði haft meiri áhrif á val mitt en stefnan. Þegar Björt framtíð kom fram á sjónarsviðið sá ég að þarna var flokkur að mínu skapi. Flokkur sem ég gæti kosið af heilum hug. Ég fylgdist með af hliðarlínunni og sótti nokkra fundi en sá ekki fyrir mér að taka beint þátt í starfinu eða fara í framboð.

Ég, eins og eflaust margir aðrir, hef átt nokkuð erfitt með að fylgjast með pólitískri umræðu síðustu ár þrátt fyrir að hafa brennandi áhuga á þjóðfélagsmálum. Mér finnst umræðan allt of oft yfirborðskennd og einkennast af dónaskap og lítilsvirðingu gagnvart þeim sem eru á annarri skoðun Þá fer oft lítið fyrir staðreyndum og meira fyrir skoðunum. Fyrir nokkrum mánuðum hlustaði ég á formann eins flokks takast á við þingmann úr öðrum flokki. Ég var engu nær þrátt fyrir að hafa hlustað um hríð og þegar þeir voru farnir að rífast um það hvor gripi meira fram í fyrir hinum slökkti ég á útvarpinu. Ég var hugsi yfir því að þingmenn skyldu nota þessar fáu mínútur í kastljósi fjölmiðlanna til að rífast og níða skóinn hvor af öðrum. Ég var líka pirruð yfir því að þáttastjórnandinn skyldi ekki stýra þættinum af meiri festu en það er kannski annar handleggur.

Þar sem ég sat þarna inni í eldhúsi og saup á kaffi áttaði ég mig á því að stjórnmál á Íslandi munu ekki breytast af sjálfu sér. Við sem trúum því að hægt sé að nálgast stjórnmál með öðrum og skynsamlegri hætti verðum einfaldlega að láta til okkar taka. Það ætla ég svo sannarlega að gera ásamt öllu því frábæra fólki sem tilheyrir Bjartri framtíð. Ég held að það sé eftirspurn eftir þeirri nálgun á stjórnmál sem flokkurinn stendur fyrir. Þá hefur mér fundist vanta frjálslyndan, víðsýnan miðjuflokk með áherslu á mannréttindi, umhverfis- og neytendamál. Það lítur út fyrir að kjósendur muni hafa úr nógu að velja á kjördag sem er frábært.  Vonandi verður Björt framtíð vænlegur kostur í hugum sem flestra.

Meira um áherslur flokksins, mínar persónulegu skoðanir og stefnumál í næstu pistlum.