Reykjavíkurflugvöllur

Við sem búum úti á landi vitum hversu mikilvægur flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er enda tryggir hann góða tengingu við höfuðborgarsvæðið. Ég er þeirrar skoðunar að þessi tenging sé í raun forsenda þess að landsbyggðin eigi raunhæfa möguleika á því að dafna. Það er þess vegna alltaf frekar óþægilegt þegar fréttir berast af því að flugvöllurinn sé á förum. Það fylgir nefnilega aldrei sögunni hvert flugvöllurinn er að fara.

Ég hef vissan skilning á því að borgin vilji nýta Vatnsmýrina en staðreyndin er sú að flugvellinum hefur ekki verið fundinn annar samastaður ennþá. Stundum er talað um að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur en það er hugmynd sem mér líst afar illa á. Nokkur sveitarfélög á landsbyggðinni fengu KPMG til að skoða hvaða áhrif það hefði að færa innanlandsflugið til Keflavíkur. Sjá skýrsluna.

Flug var kannað frá 6 stöðum; Akureyri, Egilsstaðir, Vestmannaeyjar, Bíldudalur, Ísafjörður og Höfn. Niðurstöður skýrslunnar eru þær helstar að verði innanlandsflug flutt til Keflavíkur leggist það af í núverandi mynd, þ.e. sumar áætlanir leggjast af og flugferðum fækkar á öðrum. Þetta gerist vegna þess að ferðatíminn lengist. Bæði tekur flugið sjálft lengri tíma og þá bætist við ferðatíminn frá Keflavík til Reykjavíkur. Kostnaður við ferðalagið eykst líka því ferðalangar verða jú að koma sér til Reykjavíkur. Ferðalagið verður þannig bæði lengra og dýrara.

Alls svara 85% þeirra sem tóku þátt í könnuninni að þeir myndu fljúga sjaldnar ef innanlandsflugið færðist til Keflavíkur. Þetta myndi leiða til þess að heildarfjöldi flugfarþega minnkar um 20% – 40% sem þýðir fækkun upp á um það bil 136 þúsund farþega á ári sé miðað við farþegafjölda í innnanlandsflugi árið 2011. Það verður einfaldlega fýsilegri kostur fyrir þá sem ekki búa fjærst frá Höfuðborginni að keyra eða einfaldlega sleppa ferðalaginu. Ekki kemur á óvart að langflestir sem nýta sér innanlandsflugið eða 70% farþega eru búsettir á landsbyggðinni. Meirihluti þessara ferðalanga áttu erindi á höfuðborgarsvæðið vegna vinnu eða viðskipta. Fólk er þannig ekki að leið í Smáralindina eða Kringluna eins og stundum er haldið fram.

Mikilvægust eru þó rökin um sjúkraflugið. Það er ekki hægt að gera þá kröfu að sérhæfð heilbrigðisþjónusta sé byggð upp um allt land en það má gera þá kröfu að fólk sem þarf á bráðaþjónustu að halda geti komist hratt og örugglega á spítala allra landsmanna. Þegar og ef flugvellinum verður fundinn nýr staður er því grundvallaratriði að aðgengi að Landspítalanum sé tryggt

Skýrsla KPMG útilokar í raun flutning innanlandsflugs til Keflavíkur. Það er þó ekki þar með sagt að flugvöllurinn verði að vera staðsettur nákvæmlega þar sem hann er núna. Ýmsir möguleikar hafa verið nefndir; Löngusker, Hólmsheiði, auk þeirrar hugmyndar að hnika vellinum aðeins til í Vatnsmýrinni þannig að auka megi byggingarland.

Það þarf að móta stefnu um framtíð innanlandsflugsins sem fyrst. Aðgengi landsbyggðarinnar að höfuðborginni er nefnilega stórmál. Við hljótum að geta fundið lausn sem er ásættanleg fyrir okkur öll, borgina og landsbyggðina.