Ábyrg efnahagsstjórn í orði en ekki á borði

„Við þurfum bara agaða hagstjórn“ heyrist oft þegar rætt er um nauðsyn þess að skipta krónunni út fyrir stöðugan gjaldmiðil. Krónan er samkvæmt þessu ekki vandamálið heldur hagstjórnin og það eina sem við þurfum að gera er að ákveða að verða öguð. Í gegnum tíðina hefur það þó vafist töluvert fyrir okkur. Kannski vegna þess að ábyrgð í efnahagsmálum kallar gjarnan á óvinsælar ákvarðanir. Ákvarðanir sem stjórnmálamenn veigra sér við að taka, sérstaklega ef þeir hyggjast sitja lengi á þingi.

Óstöðugleikinn í íslensku efnahagslífi birtist meðal annars í viðvarandi verðbólgu. Það er vissulega stór áskorun að eiga við verðbólgu í landi sem hefur sjálfstæða mynt, sérstaklega þegar hagkerfið er jafn lítið og á Íslandi. Stjórnvöld hafa þó ekki látið sitt eftir liggja og margar ákvarðanir í gegnum tíðina hafa beinlínis ýtt undir óstöðugleika.

Sem dæmi má nefna tvær ákvarðanir stjórnvalda sem flestir eru nú sammála um að hafi verið hagstjórnarmistök.

Síðast þegar skattar voru lækkaðir var það í miðju „góðærinu“. Vinsæl aðgerð eflaust en vanhugsuð. Auknar ráðstöfunartekjur skiluðu sér ekki í meiri sparnaði heldur þvert á móti. Skattalækkunin ýtti enn frekar undir verðbólgu og aukinn viðskiptahalla og eftir á hafa menn viðurkennt að þessi ákvörðun var tekin gegn betri vitund.  Stjórnvöld ýttu þannig undir óstjórn í efnahagsmálum en fengu hugsanlega einhver atkvæði fyrir uppátækið.

Einnig má nefna breytingar á húsnæðislánakerfinu 2004 og innrás bankanna á húsnæðislánamarkað. Reyndar má segja að lánveitingar til fasteignakaupa hafi farið algerlega úr böndunum og um tíma voru sumir bankar jafnvel farnir að bjóða lán gegn 100 % veðsetningu.

Fasteignaverð rauk upp og bankarnir lánuðu of mörgum of mikið.  Skuldir heimilanna tvöfölduðust t.d. á 10 árum og voru þær þó ekkert sérstaklega lágar fyrir. Það hefði eflaust verið óvinsælt að setja hömlur á fasteignalán, eða útlán bankanna yfir höfuð, en það hefði hins vegar verið ábyrgt og það sem á tyllidögum er kallað öguð efnahagsstjórn.

Það er alltaf freistandi að boða aukin útgjöld til góðra mála, en sjaldan fylgir sögunni hvar og hvernig eigi að afla fjárins. Á sama hátt er vinsælt að lofa skattalækkunum en aldrei er tilgreint hvar eigi að skera niður á móti.

Mér finnst að stjórnmálamenn sem eru í vinsældakeppni fyrir kosningar ættu að hætta að lofa ábyrgri efnahagsstjórn. Það er nefnilega mjög hæpið að lofa auknum útgjöldum, lægri sköttum og agaðri hagstjórn allt á sama tíma. Árin fyrir hrun eru ágætis áminning um það.