Meiri sátt

Eitt af því sem Björt framtíð leggur mikla áherslu á er sátt og samræður. Mörgum kann að finnast þetta heldur ómerkilegt stefnumál.  Sumir líta á sátt sem veikleikamerki og einhverjir telja að sátt sé óraunhæf enda snúist stjórnmál um að ná fram málum með góðu eða illu. Þá eru þeir til sem telja útilokað að ná nokkuri sátt þegar íslensk stjórnmál eru annars vegar.

Meiri sátt er hins vegar mikilvæg. Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum og glímum enn við eftirköst hrunsins. Peningar eru af mjög skornum skammti og þörf er á aðhaldi og forgagnsröðun verkefna. Það er hins vegar mjög slæmt að allar aðgerðir skuli miðast við eitt kjörtímabil.  Það segir sig sjálft að það er ekki vinnulag sem skilar góðum árangri. Það er því ekki bara skynsamlegt heldur beinlínis nauðsynlegt að stjórn og stjórnarandstaða nái sátt um mikilvæg mál. Að hlustað sé á ólík sjónarmið og leitað lausna í stað þess að alið sé á ósætti. Alltof algengt er að farið sé af stað með mál sem engin sátt ríkir um. Þau tekst jafnvel ekki að klára og enda því ofan í skúffu þegar ný stjórnvöld taka við. Slíkt er sóun á tíma og fjármunum.

Við þurfum líka að sammælast um það hvernig við stundum stjórnmál. Við höfum vanist orðræðu sem þekkist vart utan stjórnmálanna. Fólk hikar ekki við að tala niður til pólitískra samferðarmanna og túlka skoðanir þeirra rétt eins og þeir séu ekki færir um það sjálfir. Fólki eru gerðar upp skoðanir og uppnefni og gífuryrðin fjúka hægri vinstri. Þá eru jafnvel dæmi um að stjórnmálamenn geri grín að útliti þeirra sem þeir skilgreina sem andstæðinga. Við hjá Bjartri framtíð teljum að nú sé mál að linni og þótt fyrr hefði verið.

Þannig hljómar ein af áherslum Bjartrar framtíðar:

„Gerum störf Alþingis uppbyggilegri með breyttum þingsköpum. Breytum stjórnmálunum. Vinnum að friði. Tölum af virðingu og sanngirni um hvert annað. Þannig eflum við traust“.

Þessi áhersla lætur kannski ekki mikið yfir sér. Það er ekki víst að fólk staðnæmist sérstaklega við hana þegar það rennir í gegnum áherslurnar á bjortframtid.is. En þetta er meginástæðan fyrir því að ég féll fyrir Bjartri framtíð. Það þarf meiri sátt, meiri virðingu og meiri frið í íslensk stjórnmál. Að því viljum við í Bjartri framtíð vinna og vonumst til að sem flestir leggi okkur lið.