Lífræn lopapeysa

Þegar hinn fullkomni kjóll, klæðilegar gallabuxur eða hinir einu sönnu skór eru fundnir eru fæstir sem setja sig í stellingar og byrja að spyrja afgreiðslufólkið spurninga er varða framleiðsluhætti. Get ég ekki treyst því að verkafólkið einhvers staðar í Asíu hafi fengið borgað samkvæmt kjarasamningi? Notaði bómullarbóndinn ekki örugglega hlífðarbúnað þegar hann sprautaði eitri á akurinn? Eru börnin hans nokkuð að vinna á akrinum? Hversu neikvæð umhverfisáhrif höfðu efnin sem voru notuð til að lita buxurnar?

Það er auðvitað líklegra en ekki að afgreiðslufólkið hafi engin svör. Auk þess má segja að þegar hinar fullkomnu gallabuxur eru innan seilingar og ekkert eftir nema renna kortinu í gegn séu neikvæð áhrif framleiðslunnar á umhverfi og samfélag ekki efst í huga manns. Það er þá frekar að maður velti fyrir sér, fyrst maður er á annað borð byrjaður að sveifla kortinu, hvort ekki sé rétt að kaupa bol í stíl.

En þetta er að breytast. Vinsældir framsækinna tískuvöruframleiðenda sem gagngert markaðssetja sig sem umhverfisvæna og siðræna hafa aukist mjög hratt á undanförnum árum. Ástæðan er einfaldlega sú að sífellt fleiri neytendur vilja geta treyst því að tískuvarningurinn sem þeir kaupa sé framleiddur á umhverfisvænan og ábyrgan hátt.

Á tískuvikunni í London síðasta haust var í fyrsta skipti sérstök sýning á „ethical labels“. Hönnuðir sem framleiða undir þessum formerkjum leggja áherslu á siðræna framleiðsluhætti og umhverfisvæn efni. Áherslurnar geta þó verið misjafnar. Sumir endurvinna efni og sauma nýjar flíkur úr gömlum, aðrir gera út á framleiðslu sem ekki inniheldur dýraafurðir (t.d. leður) og enn aðrir leggja ríka áherslu á að hagur verkafólks sem kemur að framleiðslunni sé tryggður.

Reyndar leggja allir framleiðendurnir mikið upp úr umhverfisþættinum enda er textíliðnaðurinn með eindæmum óumhverfisvænn. Það er engin tilviljun að eftirspurnin eftir lífrænni bómull eykst jafnt og þétt. Bómullarakrar þekja einungis um 2-3% alls ræktunarlands í heiminum en á þá eru notuð 22% alls skordýraeiturs. Bómullarframleiðsla er þess utan niðurgreidd í Bandaríkjunum sem leiðir til þess að fátækir bómullarbændur, sérstaklega  í Afríku, búa við ólíðandi samkeppnishömlur og geta ekki selt bómull á heimsmarkaði fyrir viðunandi verð.

Stórir og leiðandi framleiðendur hafa brugðist við vaxandi eftirspurn og margir hverjir tileinka nú litlum hluta framleiðslunnar siðrænni framleiðsluháttum. T.d. selur Levi´s gallabuxur úr lífrænt ræktaðri bómull sem þvegnar eru úr ólífuolíusápu í stað kemískrar efnablöndu. H&M selur ungbarnaföt sem bera umhverfismerkið evrópska blómið og Stella McCartney, Oasis, Top Shop og Nike, meðal annarra, hafa sett á markað sérstaka línu framleidda úr lífrænni bómull.

Eflaust eru margir íslenskir hönnuðir sem geta státað að siðrænni framleiðslu. T.d. er fátt sjálfbærara en íslensk lopapeysa. Ég tala nú ekki um ef ullin er ólituð eða lituð með náttúrulegum litarefnum. Íslenskir fatahönnuðir eru í fremstu röð og það þarf vart að leita út fyrir landsteinana ef maður vill tolla í tískunni. Þess vegna tel ég að íslenskir hönnuðir eigi að gera út á siðræna framleiðsluhætti og beinlínis auglýsa þá.

Ég spái því að „fast fashion“, þ.e. óumhverfisvænn fatnaður með stuttan líftíma sem kostar lítið (nema kannski á Íslandi) sé á undanhaldi og „slow fashion“ það sem koma skal. Við munum sem sagt kaupa færri flíkur, skó, töskur og skartgripi en vandaðri og hugsanlega dýrari hluti. Við sættum okkur við verðmuninn því að það skiptir okkur máli að framleiðslan sé umhverfisvæn og við munum kjósa gallabuxur úr lífrænni sanngirnisbómull frá Malí fram yfir gallabuxur úr ríkisstyrktri eiturúðaðri bómull frá Bandaríkjunum.

Með þessum hætti er hægt að afeitra og siðferðisjafna fataskápinn og það besta er að nagandi samviskubit yfir fatakaupum mun heyra sögunni til.

Grein þessi birtist í Viðskiptablaðinu 3. ágúst 2007