Er framtíð í krónunni?

Evrópusambandið virðist ekki ætla að verða kosningamál í ár frekar en áður og ef marka má skoðanakannanir er fólk almennt á móti aðild. Mér finnst hins vegar mikilvægt að klára aðildaviðræðurnar og fá samninginn í hendurnar. Þjóðin tekur síðan afstöðu til þess hvort hún telur hagsmunum sínum betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins. Það er þó ekki hægt að gera fyrr en samningur liggur fyrir. Allt tal um að ekki þurfi að kíkja í pakkann, eins og það er orðað, og hætta eigi viðræðum strax finnst mér í meira lagi óábyrgt. Hugmyndir um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda eigi viðræðum áfram finnast mér líka út í hött. Ef þjóðinni er treystandi til að meta hvort halda eigi ferlinu áfram þá hlýtur henni líka að vera treystandi til að meta hvort samningurinn hentar okkur eða ekki. Maður fær reyndar sterklega á tilfinninguna að það séu hagsmunaöfl í þessu þjóðfélagi sem vilji hreinlega ekki að samningur líti dagsins ljós.

Í mínum huga er Evrópusambandsaðild fyrst og fremst fýsilegur kostur vegna möguleikans á að taka upp Evru og fá til þess aðstoð. Ég sé þó líka möguleika í byggðastefnu ESB og tollabandalaginu sem myndi skila okkur lægra vöruverði. En það er þó fyrst og fremst krónan sem er málið. Dýrkeypt tilraun með sjálfstæðan gjaldmiðil hefur nefnilega endað með ósköpum. Enginn veit hvers virði krónan er og við treystum okkur ekki til að komast að því og höldum henni þess vegna í höftum. Krónan er með öðrum orðum ekki gjaldgeng á frjálsum fjármagnsmarkaði. Hún er eiginlega bara til heimabrúks.

Ég sé hreinlega ekki hvernig við ætlum að ná stöðugleika og tryggja viðunandi lífskjör með krónuna sem gjaldmiðil. Við sættum okkur við að borga hærri vexti en íbúar annarra vestrænna landa og við látum endalausar gengisfellingar yfir okkur ganga. Við erum orðin svo samdauna verðbólgunni að okkur finnst við í vari ef verðbólgan hangir undir 5%. Eftir margra ára óðaverðbólgu var verðtryggingunni komið á árið 1979 til að tryggja verðgildi innlána og útlána. Má í raun líkja þeim gjörningi við einhvers konar uppgjöf. Við réðum ekki við gjaldmiðilinn og bjuggum því til aðra mynt sem lánveitendur voru tilbúnir að lána út. Ekki ætla ég að mæla verðtryggingunni bót en mér finnst við vera að missa sjónir á aðalatriðum þegar frasar eins og „við verðum að ná tökum á verðtrygginunni“ eru farnir að fjúka. Skynsamleg hagstjórn hlýtur fyrst og fremst að miðast við að ná tökum á verðbólgunni og ég leyfi mér að efast um að það verði gert til langs tíma með krónuna að vopni.

Fólk getur haft ýmsar skoðanir á Evrópusambandinu og það er ljóst að aðild hefur bæði kosti og galla. Staðreyndin er þó sú að 27 Evrópulönd telja hagsmunum sínum best borgið í náinni samvinnu hvert við annað og flest þeirra vilja nota einn sterkasta gjaldmiðil í heimi.  Okkur ber skylda til að skoða á fordómalausan hátt hvaða tækifæri felast í aðild og hvort við sjáum mögulega fram á bjartari framtíð í góðri og náinni samvinnu við okkar helstu viðskipta- og vinaþjóðir.  Allt annað er óábyrgt.