Upplýst ákvörðun að lenda í kreppu?

Áhugaverða skýrslu Seðlabankans rak á fjörur mínar og eftir lestur hennar fallast mér hreinlega hendur. Um er að ræða greiningu frá árinu 2000 á því hvernig koma eigi í veg fyrir gjaldeyriskreppu og efnahagshremmingar. Stjórnvöld virðast hins vegar hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að lenda í gjaldeyriskreppu. Þannig gerðu þau allt þveröfugt við það sem ráðlagt var.

Hér má sjá punkta sem ég klippti úr skýrslunni. Rennið í gegnum þá (fyrir þá sem vilja fara hratt yfir sögu hef ég feitletrað sérlega krassandi setningar).

Í ljósi þess hve fjármálakreppur geta verið kostnaðarsamar er mikilvægt að gripið sé til fyrirbyggjandi aðgerða til þess að koma í veg fyrir þær. Til þess að það sé unnt þurfa vísbendingar að vera fyrir hendi sem gefa tímanlega til kynna hvenær hætta kunni að vera á ferðum. Mikilvægustu vísbendingar af þjóðhagslegum toga sem vert er að fylgjast með eru eftirfarandi:

Mikill vöxtur útlánaMjög ör vöxtur hefur oft verið fyrirboði alvarlegrar fjármálakreppu. Samhliða örum vexti er hætt við að gæðum eignasafns lánastofnana hraki. Ör vöxtur í veðskulda- og öðrum neyslulánum og gengistryggðum lánum getur verið undanfari almennrar uppsveiflu.

Vaxandi viðskiptahalli. Fylgifiskur mikils og vaxandi viðskiptahalla er að jafnaði innstreymi erlends fjármagns sem fjármálakerfið hefur að miklu leyti milligöngu um að afla. Því eru náin tengsl á milli viðskiptahalla og útlánavaxtar. Óhóflegur viðskiptahalli kann einnig að vera vísbending um gjaldeyriskreppu, sem getur valdið lausafjárerfiðleikum fjármálastofnana, einkum ef viðskiptahallinn er að miklu leyti fjármagnaður með skammtímalánum.

Óraunhæft raungengi. Mikil hækkun raungengis getur gert útflutningsgreinum erfitt um vik að standa við skuldbindingar sínar. Hátt raungengi eykur jafnframt hættu á skyndilegri gengislækkun sem getur kippt fótunum undan getu lántakenda sem ekki njóta tekna af útflutningi til að standa við erlendar skuldbindingar sínar.

EignaverðbólgaPeningaleg þensla getur stuðlað að óhóflegri hækkun á verði hlutabréfa og fasteigna. Þegar peningalegt aðhald er aukið getur verðið lækkað skyndilega á sama tíma og tekjur fjármálastofnana rýrna. Í því getur falist mikil áraun fyrir fjármálakerfið.

Fjármálastofnanir geta einnig orðið fyrir óbeinum áhrifum vegna áhrifa mikilla gengis- eða vaxtabreytinga á viðskiptavini þeirra, jafnvel þótt þær geti sjálfar tryggt sig gegn beinum áhrifum þeirra. Auknu frjálsræði fylgir aukin áhætta á sama tíma og vaxandi samkeppni kann að takmarka hagnað. Sé auknu frjálsræði ekki fylgt eftir með öflugu eftirliti getur það leitt til alvarlegra bresta í fjármálakerfinu.

Hvað gengi hlutabréfa áhrærir þarf að hafa í huga að ekki er víst að það endurspegli fyllilega mat markaðsaðila á undirliggjandi áhættu ef sú skoðun er ríkjandi að hið opinbera muni hlaupa undir bagga með fjármálastofnunum í vanda.

Ástand efnahags- og peningamála um þessar mundir einkennist annars vegar af öflugum hagvexti sem staðið hefur í nokkur ár, mikilli kaupmáttaraukningu og tiltölulega góðri stöðu atvinnulífs, og hins vegar af sterkum ofþenslueinkennum, eignaverðbólgu, peninga- og útlánaþenslu, miklum viðskiptahalla og verðbólgu sem nýlega hefur vaxið töluvert. Við þessar aðstæður er ólíklegt að fjármálastofnanir lendi í erfiðleikum í náinni framtíð, enda er fjárhagsstaða fyrirtækja enn góð. Hins vegar getur langvarandi ójafnvægi í þjóðarbúinu sem birtist í miklum viðskiptahalla og aukinni verðbólgu leitt til þess að traust á gengi krónunnar þverri og í versta falli valdið gjaldeyriskreppu. Frá sjónarhóli fjármálalegs stöðugleika er það helsta áhyggjuefnið ásamt því að núverandi aðstæður stuðli að bankakreppu síðar með því að ýta undir skuldsetningu heimila og fyrirtækja sem ekki stenst þegar slær í bakseglin.

Samkvæmt spám verður viðskiptahalli meiri en 5% af landsframleiðslu á þessu ári þriðja árið í röð. Þetta hefur ekki gerst undanfarna fjóra áratugi og hallinn nú er meiri og langvinnari en áður á tímum vaxandi útflutningstekna. Mikill og langvarandi viðskiptahalli er sérstaklega áhyggjuefni í ljósi þess hve hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu er lágt. Byrði mikils hallarekstrar verður því þyngri sem skuldsetning þjóðarbúsins er meiri og alþjóðlegir raunvextir eru hærri. Viðskiptahallinn er því áhyggjuefni frá sjónarmiði fjármálastöðugleika. Hann eykur skuldsetningu þjóðarbúsins og gerir það þannig viðkvæmara fyrir áföllum og getur til lengdar grafið undan trausti á gengi krónunnar.

Mikil peninga- og útlánaþensla er eitt helsta áhyggjuefnið í tengslum við stöðugleika fjármálakerfisins um þessar mundir.

Eignaverð virðist hins vegar fremur þanið, eins og nánar er fjallað um síðar, og því aukast líkur á að það sé að nálgast hámark. Lánastofnanir þurfa því að sýna mikla árvekni á næstunni varðandi lánveitingar og stöðutöku sem byggjast á eignaverði. 

Í ljósi reynslunnar og vaxandi skuldsetningar virðist nokkur hætta á að afturkippur í tekjum heimilanna og lækkandi íbúðaverð gæti leitt til erfiðleika í lánakerfinu.

Mjög erfitt er að meta hvort verðlagning hlutabréfa á verðbréfamarkaði feli í sér verulega áhættu, enda byggist verðlagning þeirra á væntingum um framtíðarhagnað fyrirtækja sem enginn veit hver verður

Mikil eftirspurn hefur verið eftir hlutabréfum og markaðsaðilar virðast búast við verðhækkun þeirra. Í þessari bjartsýni markaðsaðila er hins vegar fólgin langtímaáhætta, sérstaklega í ljósi þess hve jafnvægi í þjóðarbúskapnum er viðkvæmt um þessar mundir.

Skuldir íslenskra heimila eru nú með því hæsta sem gerist að tiltölu við ráðstöfunartekjur. Skuldaaukning í uppsveiflu getur verið áhættusöm ef hagvöxtur er ótraustur.

Þegar í bakseglin slær fer það oft saman að geta einstaklinga og fyrirtækja til að standa undir afborgunum og vöxtum lána sem þeir hafa tekið til að fjármagna eignakaup þverr á sama tíma og verð eignanna sem lagðar hafa verið að veði lækkar mikið og skyndilega.
…Veð sem eru farin að nálgast 80% af fasteignaverði gætu því reynst ótraust. 

Enda þótt nokkuð hafi dregið úr vexti útlána innlánsstofnana undir lok síðasta árs var hann enn mjög hraður. Fyrri aðvaranir Seðlabanka Íslands um útlánavöxtinn og hugsanlegar afleiðingar hans eiga því jafnvel við og áður. Hröðum vexti útlána getur fylgt slævt útlánamat og afleiðingin orðið útlánatöp þegar þrengir að í þjóðarbúskapnum.

Niðurstöður skýrslunnar eru m.a.:

Í stuttu máli segir að horfur séu nokkuð góðar en…:

Meginveikleiki íslensks fjármálakerfis nú felst í miklum viðskiptahalla, peninga- og útlánaþenslu, lágu eiginfjárhlutfalli margra lánastofnana og að nokkru í viðkvæmri erlendri skammtímastöðu sem þó hefur skánað. Verðbólga hefur vaxið í seinni tíð og raungengi krónunnar hefur hækkað og er nú nálægt meðaltali síðustu 20 ára. Seðlabanki Íslands telur að innlánsstofnanir og sumar aðrar lánastofnanir hafi farið fullgeyst í að auka útlán í seinni tíð. Þetta endurspeglast í versnandi eiginfjárstöðu. Frá sjónarhóli fjármálastöðugleika hefðu lánastofnanir átt að efla eiginfjárstöðu sína til þess að verða betur búnar undir að mæta erfiðari tímum. Erfitt kann að reynast að styrkja eiginfjárstöðu lánastofnana við lakari efnahagsaðstæður og rekstrarskilyrði en nú ríkja. Nokkuð dró úr vexti útlána undir lok síðasta árs þótt hann væri enn hraður. Miklum vexti útlána fylgir sú hætta að ekki sé nægilega hugað að greiðslugetu lánþega og því gætu lánastofnanir orðið fyrir útlánatöpum þegar þrengir að í efnahagslífi. Þessi hætta er þeim mun meiri sem fyrirtæki og heimili eru skuldsettari.

Þá felst jafnan áhætta í lántökum í erlendum gjaldeyri hjá þeim sem ekki afla tekna í erlendum gjaldeyri. Viðskiptahallinn felur í sér skuldasöfnun erlendis og dragi ekki verulega úr honum á komandi misserum getur hann grafið undan trúverðugleika gengisins. Hættan við ríkjandi aðstæður felst í því að núverandi þróun, ofþensla, mikill viðskiptahalli, verðbólga og hækkandi raungengi, leiði til vaxandi erfiðleika í efnahagsmálum og auki líkur á gjaldeyriskreppu. Áföll í ytra umhverfi hagkerfisins gætu haft hliðstæðar afleiðingar. Hæfni fjármálakerfisins til þess að takast á við skyndilegar breytingar yrði meiri ef betra jafnvægi ríkti í viðskiptum þjóðarbúsins gagnvart útlöndum. Auk þess að draga úr verðbólgu ætti stjórn efnahagsmála því öðru fremur að beinast að því að draga úr viðskiptahallanum.“

Ég ítreka að þessi greining var gerð árið 2000.  Í skýrslunni eru góðar leiðbeiningar um það hvernig á að forðast gjaldeyriskreppu. Allar viðvaranir eru hins vegar hunsaðar. Frá því að þessi greining var gerð hélt viðskiptahallinn áfram að aukast, skuldsetning heimila og fyrirtækja líka, krónan varð alltof sterk og ríkið beinlínis ýtti undir aukna veðsetningu húsnæðis með því að heimila 90% lánsveðhlutfall. Eftirlit með fjármálastofnunum var ekki aukið eins og mælt var með og stjórnvöld gerðu ekkert til að draga úr þenslunni. Þvert á móti var gefið í með auknum ríkisútgöldum og skattalækkunum. Í kjölfarið áttu eftir að koma margar greiningar, m.a. frá ASÍ, þar sem varað var við þróuninni en því miður fyrir þjóðina vantaði skýra framtíðarsýn og kjark til að fara í nauðsynlegar aðgerðir. Af hverju hef ég á tilfinningunni að við höfum ekkert lært.

Skýrslan í heild sinni http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=1235