Kornið sem fyllir mælinn

Á nokkrum áratugum hefur framleiðsla á flestum neysluvörum flust til fátækra landa. Þannig er hægt að ná niður framleiðslukostnaði enda launin lág og kröfur sem gerðar eru í öryggis- og umhverfismálum mun minni en við eigum að venjast. Aðstæður eru sérstaklega slæmar í Bangladess en þar eru þúsundir fataverksmiðja sem framleiða að mestu leyti varning fyrir Evrópu- og Bandaríkjamarkað.

Sem kunnugt er hrundi verksmiðjubyggingin Rana Plaza til grunna nú í apríl og yfir 1.100 manns létu lífið. Flestar hinna látnu voru saumakonur. Slysið hefur beint sjónum umheimsins að ömurlegum aðstæðum verkafólks í fátækum löndum og hafa stjórnvöld í Bangladess lofað úrbótum. Það er þó ekkert nýtt að starfsfólk í verksmiðjum hinum megin á hnettinum slasist eða látið lífið við störf sín.

Samkvæmt samtökunum Clean Clothes Campaign hafa meira en 500 manns látist í eldsvoðum í fataverksmiðjum Bangladess síðan 2006. Mannskæðasti bruninn varð í desember 2012 þegar verksmiðja sem framleiddi meðal annars fyrir Walmart brann til grunna. Þar létu 112 starfsmenn lífið og fjölmargir slösuðust. Tveimur árum áður létust 29 í bruna í verksmiðju sem framleiddi varning fyrir GAP. En það er ekki bara í Bangladess sem verkafólk lætur lífið. Í Pakistan létust nærri 300 manns þegar eldur kviknaði í fataverksmiðju í september 2012. Engar brunavarnir voru í húsinu, hvorki brunastigar né neyðarútgangar, og járngrindur voru fyrir gluggum.

Fréttir af vinnuslysum í fjarlægum löndum fara sjaldnast hátt. Tala látinna virðist þurfa að fara yfir ákveðið mark til að ömurlegar aðstæður verkafólks komist almennilega á dagskrá. Þegar meira en þúsund manns látast í einu og sama slysinu virðist umheiminum loksins nóg boðið. Kröfur um bætt öryggi og mannsæmandi laun eru háværari en nokkru sinni fyrr og nýlega skrifuðu um 40 fataframleiðendur undir bindandi samkomulag til að tryggja aukið öryggi í verksmiðjum í Bangladess. Það er skref í rétta átt.

Það er vonandi að hið hörmulega slys í Bangladess sé kornið sem fyllir mælinn og að við munum nú sjá raunverulegar breytingar til hins betra. Það er nefnilega eitthvað svo innilega rangt við að lífi og limum verkafólks í fjarlægum löndum sé stefnt í hættu til þess eins að skaffa Vesturlandabúum ódýrar vörur

Neytendablaðið 2. tbl 2013