Virðisaukaskattur á gistingu

Fyrsta frumvarp sem ríkisstjórnin lagði fram á sumarþingi snýst um að hætt verði við áður boðaða hækkun á virðisaukaskatti á gistingu úr 7% í 14%. Hækkunin átti að taka gildi 1. september 2013.

Forsaga málsins er sú að árið 1994 var lagður á 14% vsk á gistingu og árið 2007 var skatturinn lækkaður í 7%. Á síðasta þingi lagði þáverandi ríkisstjórn til að vsk á gistingu yrði hækkaður í 25,5% eins og er á flestum vörum og þjónustu. Hætt var við þau áform og ákveðið að fara hægar í sakirnar og hækka skattinn í 14%. Þá átti hækkunin að taka gildi að hausti eftir að aðalferðamannatímanum lyki. Þingmenn Bjartrar framtíðar lögðust á sínum tíma gegn svo hárri hækkun og gagnrýndu að hana bæri of brátt að. Mikilvægt væri að seljendur hefðu tíma til aðlögunar. Fallist var á þessi rök að hluta og ákveðið að setja gistingu í nýtt skattþrep 14% enda hafði ríkisstjórnin ekki meirihluta í málinu.

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að ríkið verði af 500 milljónum í ár og 1.500 milljónum árið 2014 og eftirleiðis. Stjórnvöld halda því fram að tekjutapið verði bætt með bættri samkeppnisstöðu, þ.e. lægra verð muni skila fleiri ferðamönnum eða eins og segir orðrétt í athugasemdum með frumvarpinu: „Á móti því tekjutapi vegur, ef að líkum lætur, aukin eftirspurn og viðbótartekjur a.m.k. til lengri tíma litið.“  Stjórnvöld segja enn fremur að þetta sé liður í að einfalda skattkerfið og geti minnkað skattsvik í greininni.

Mörg rök voru færð fyrir því af hálfu þingmanna minni hlutans að hækka eigi virðisaukaskatt á gistingu næsta haust;

  • Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnugrein sem nýtur þess hve gengi krónunnar er lágt og hversu vinsælt ferðmannaland Ísland er. Greinin er því vel aflögufær. Ríkið verður fyrir ýmsum kostnaði vegna gesta sem sækja landið heim, álag eykst til dæmis á heilbrigðisstofnanir, lögreglu og björgunarsveitir. Ekki er því óeðlilegt að skattleggja ferðamenn.
  • Gisting er um 11% af þeim heildarkostnaði sem ferðamaður leggur út vegna heimsóknar sinnar til Íslands.  Það mun því ekki hafa úrslitaáhrif fyrir ferðamenn hvort VSK á gistingu sé 7% eða 14%.
  • Ferðaþjónustan greiðir 7% vask af gistingu en innheimtir 25,5% vask af keyptri vöru og þjónustu. Innskattur hefur verið hærri en útskattur frá 2007. Eftirfarandi kemur fram í fyrrnefndri skýrslu hagfræðistofnunar: „Vissulega er rétt sem haldið hefur verið fram að ekkert er óeðlilegt við að í ört vaxandi grein sé innskattur hærri en útskattur. Slík sjónarmið gætu einkum átt við ef um væri að ræða sprotagrein sem nauðsynlegt væri talið að hlúa sérstaklega að á erfiðu uppvaxtarskeiði. Meiri vafi hlýtur hins vegar að leika á nauðsyn þess að styrkja jafn fyrirferðarmikla atvinnugrein og ferðaþjónustu„.
  • Ekki er hægt að treysta því að tekjur aukist með auknum straumi ferðamanna eins og stjórnvöld halda fram. Í skýrslu Hagfræðistofnunar háskólans um áhrif hækkunar vsk úr 14% í 25,5% kemur eftirfarandi fram: „Virðisaukaskattur á gistingu lækkaði úr 14% í 7% í mars 2007. Greining á þróun verðs á gistingu bendir til þess að mestur hluti þeirrar lækkunar hafi fallið gistihúsum í skaut, en verð á gistingu lítt lækkað“. Það er því ekki óeðlilegt að spurt sé hvort lægri virðisaukaskattur komi viðskiptavinum til góða þegar upp er staðið.
  • Ekki er lögð fram nein áætlun um það hvernig eigi að afla þeirra tekna sem tapast og gert er ráð fyrir í fjárlögum. Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneyti um frumvarpið kemur eftirfarandi m.a. fram: Á þessu stigi liggja ekki fyrir aðrar ráðstafanir til að vega upp á móti þessari lækkun á áformaðri tekjuöflun ríkissjóð. Verður því að gera ráð fyrir að afkoman versni í sama mæli og þar með að sama eigi við um framgang markmiðs um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs ef ekki verða gerðar viðeigandi ráðstafanir til mótvægis.”

Afstaða Bjartrar framtíðar
Björt framtíð leggst gegn þessu frumvarpi eins og reyndar allir flokkar í minnihluta. Stjórnvöld eru að afsala ríkissjóði tekjum í formi skatta sem erlendir ferðamenn greiða, og það sem meira er, tekjum í gjaldeyri sem okkur bráðvantar. Ekkert bendir til að 7 prósentustiga lægri vsk á gistingu skili auknum tekjum í ríkissjóð. Þvert á móti bendir flest til þess að þessi aðgerð muni auka enn frekar á halla ríkissjóðs og það er ekki ásættanlegt.

Sjá nefndarálit Bjartrar framtíðar í heild sinni