Karlanefnd, geðheilbrigðismál, LÍN og eldhúsáhöld

Þingmenn Bjartrar framtíðar höfðu í nógu að snúast á sumarþinginu. Hér hef ég tekið saman nokkur mál sem þingkonur BF létu sig varða.

Karlar á ferð og flugi
Brynhildur S. Björnsdóttir spurði Karl Garðarsson formann Íslandsdeildar Evrópuráðsins hvort það hefði legið fyrir áður en nefndin lagði af stað til Strassbourg að hún væri ólögleg. Nefndin var skipuð þremur körlum og þar með braut íslenska nefndin reglur um kynjakvóta sem kveða á um að sendinefndir einstakra þjóðþinga skuli vera skipaðar konum í sama hlutfalli og viðkomandi þjóðþing eða a.m.k. einni konu.

Af fréttum mátti ætla að þessi staða hafi komið upp vegna misskilnings. Svo er hins vegar ekki. Í svari formanns kom fram að nefndarmenn vissu að ekki mætti eingöngu senda karla á þingið. Það náðist hins vegar ekki samkomulag um það hvaða karl ætti að víkja sæti fyrir konu. Það var sem sagt meðvituð ákvörðun að senda ólöglega sendinefnd til Strassbourg og sú ákvörðun skrifast ekki á neina aðra en nefndarmenn sjálfa. Evrópuráðið hótaði að taka atkvæðaréttinn af Íslandsdeildinni ef kynjahlutföllum yrði ekki breytt fyrir haustþingið og því mun einhver karlanna neyðast til að gefa sæti sitt eftir.

Það er okkar mat að endurskoða þurfi hvernig skipað er í nefndir á vegum þingsins til að koma í veg fyrir svona klúður og eins til að tryggja að allar nefndir séu með kynjahlutfall í lagi. 

Sjá fyrirspurn Brynhildar S. Björnsdóttur
Sjá svar Karls Garðarssonar

Geðheilbrigðismál barna og unglinga
Ekki hefur verið starfandi barna- og unglingageðlæknir á Akureyri frá því í byrjun apríl og ástandið því orðið mjög alvarlegt. Geðlæknir og sálfræðingur hans sögðu upp vegna skipulagsmála á FSA og ekki hefur tekist að leysa þann hnút. Geðlæknirinn sinnti Norður og Austurlandi en nú verður fólk að leita suður á BUGL en bið eftir þjónustu getur verið löng. Staða barna og unglingageðlæknis hefur verið auglýst og rann frestur út 6. júlí. Mér skilst að enginn hafi sótt um enda ekki hlaupið að því að fá sérfræðinga til starfa út á land.  Ég gerði þessa alvarlegu stöðu að umtalsefni á þingi undir liðnum sérstök umræða og sat heilbrigðisráðherra fyrir svörum.  Ekki var annað að skilja á ráðherra en að hann gerði sér grein fyrir alvarleika málsins og væri að leita lausna. Mér finnst þetta þó orðið ansi langur tími og ófært að ekki sé neinn unglinga- og geðlæknir starfandi á landsbyggðinni. Verði málið ekki leyst í haust mun ég að sjálfsögðu taka það upp aftur en ég vona að til þess komi ekki.

Sjá fyrirspurn mína til ráðherra og á hlekknum „næsta ræða“ má rekja sig áfram og sjá alla umræðuna en margir þingmenn tóku til máls auk mín og ráðherra.

Breytingar á reglum LÍN
Björt Ólafsdóttir og Freyja Haraldsdóttir fóru báðar fram á svör frá menntamálaráðherra vegna breytinga á úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem mætt hafa harðri andstöðu.  Nú verður gerð krafa um 75% námsárangur í stað 60% og á þessi aðgerð spara um 130 milljónir.  Meðal þess sem er gagnrýnt er hversu stuttur fyrirvarinn er eða aðeins tveir mánuðir og er það þvert á tilmæli umboðsmanns Alþingis í sambærilegu máli fyrir nokkrum árum. Björt og Freyja gagnrýndu þessa aðgerð harðlega enda gæti hún bitnað á þeim sem síst skyldi og þetta er gert á sama tíma og stjórnvöld tala um mikilvægi menntunar.

Sjá fyrirspurn Bjartar sem hún beinir að ráðherra undir lið sem kallast sérstök umræða og hér er jómfrúarræða Freyju þar sem hún krefur ráðherrann svara

Eftirlit með umbúðum og eldhúsáhöldum
Þetta hljómar nú kannski ekki mjög spennandi en er mikilvægt. Eftirlitsstofnun EFTA gerði úttekt hér á landi á því hvernig eftirliti með umbúðum, áhöldum og  öðru því sem kemst í snertingu við mat væri háttað. Í ljós kom að eftirlitið hér er alls ekki nógu gott. Sagt var frá þessu máli í fréttum RÚV og fannst mér um að gera að taka það upp enda ekki oft sem neytendamál rata inn í þingsal. En það stendur til bóta ef ég fæ einhverju ráðið 🙂

Sjá umfjöllun sem skýrir málið aðeins.