Þjóðarvilji þegar það á við

Eftir hrun var meirihluti þjóðarinnar fylgjandi því að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu og skal kannski engan undra eftir allt sem á undan var gengið. Því miður kláraði fyrri ríkisstjórn ekki verkið þrátt fyrir að hafa haft til þess fjögur ár. Vinstri grænir voru eindregið andvígir aðild að ESB sem flækti ferlið enn frekar. Flokkurinn samþykktu þó á landsfundi sínum í febrúar sl. að klára skyldi aðildaviðræðurnar. Þessi afstaða VG hefði gjarnan mátt liggja skýrt fyrir í upphafi síðasta kjörtímabils. Þá værum við kannski þegar komin með samninginn í hendur.

Nú hafa tekið við stjórnartaumunum flokkar sem hafa þá yfirlýstu stefnu að Íslendingum sé betur borgið utan ESB en innan. Ég hallast hins vegar að því að framtíð okkar verði bjartari í mikilli og góðri samvinnu við okkar helstu vina og nágrannaþjóðir í gegnum aðild að ESB. Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé illmögulegt að reka hagkerfi með gjaldmiðli sem engin eftirspurn er eftir. Aðild að ESB og möguleiki á upptöku evru er að mínu mati kostur sem okkur er beinlínis skylt að skoða.

Bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn kölluðu ítrekað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna á síðasta kjörtímabili eins og lesa má um í þessum ágæta pistli Vigdísar Hauksdóttur. Nú þegar þessir flokkar eru komnir til valda bólar hins vegar ekkert á slíkri atkvæðagreiðslu. Læðist því að manni sá grunur að stjórnarflokkarnir hafi bara haft áhuga á að kanna vilja þjóðarinnar þegar niðurstaðan gat orðið til þess að stöðva samningaferlið. Það er sem sagt ekki þjóðarvilji sem skiptir máli þegar upp er staðið. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa ekki einu sinni rætt málið sín á milli eins og fram hefur komið í máli formanns Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa nefnilega ekki lengur neinn áhuga á afstöðu þjóðarinnar.

„Ísland er lýðræðisríki þar sem allar skoðanir eru leyfðar og því á fólkið í landinu að segja sitt álit áður en lengra er haldið. Segi þjóðin já í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort halda eigi aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu áfram fær ríkisstjórnin skýrt umboð – en hafni þjóðin aðlögunarferlinu þá verður ekki lengra haldið – kröftum og fjármagni verður þá beitt innanlands. Þetta er lýðræðisleg sáttaleið sem ríkisstjórnin getur ekki hafnað.“

Þetta eru lokaaorð Vigdísar Hauksdóttur í fyrrnefndum pistli og ég tek undir þau. Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræðurnar er nefnilega lýðræðisleg sáttaleið sem ríkisstjórnin getur ekki hafnað.