Eftirlit gert opinbert

Björt framtíð hefur lagt fram mál sem við köllum „broskarlamerking“  en það snýst um að skýrslur heilbrigðisfulltrúa verði gerðar aðgengilegar. Þetta þýðir að þegar búið er að taka út veitingastað, bakarí, ísbúð eða aðra staði sem selja matvæli þá er skýrslan/niðurstaðan hengd upp við innganginn og einnig sett á netið neytendum til upplýsinga.

Danir innleiddu broskarlakerfi árið 2001 og hafa af því góða reynslu. Bretar eru nú að innleiða sambærilegt kerfi en þeir nota einkunnir 1-5 í stað þess að gefa niðurstöður til kynna með broskörlum. Sjá hér.

Í þessu viðtali sem ég tók við Knud Arne Nielsen, sem vann við að innleiða kerfið í Danmörku, eru ágætis upplýsingar um broskarlakerfið auk þess sem sjá má myndir af mismunandi tegundum broskarla og hvernig skýrslan lítur út komin upp á vegg.

Neytendasamtökin hafa hvatt stjórnvöld til að taka upp broskarlakerfi og Sif Friðleifsdóttir hefur tvisvar lagt fram þingsályktun um það á síðasta kjörtímabili án þess að tillagan næði fram að ganga.  Nú er málið því lagt fram í þriðja sinn.

Mér finnst mikilvægt að auka gagnsæið í eftirlitinu og held að það komi öllum til góða. Ég hef ekki áhyggjur af því að ástand veitingastaða eða annarra sölustaða sé slæmt, þvert á móti. Það er því engin ástæða til annars en hafa upplýsingarnar uppi á borðum.

Sjá hér þingsályktunartillögu Bjartrar framtíðar