Um innheimtu dómsekta

Á haustþingi lagði ég fram skriflega fyrirspurn til munnlegs svars. Það þýðir að ég sendi skriflegar spurningar á innanríkisráðherra vegna máls sem mér fannst áhugavert og ráðherra mætti síðan í þingsal og svaraði fyrirspurninni. Allir þingmenn sem áhuga hafa geta blandað sér í slíka umræðu en í þessu máli var enginn sem tók þátt fyrir utan okkur Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. En umræðurnar voru þarfar fannst mér og svör ráðherra skýr og góð. Málið er að árið 2009 kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit með innheimtu sekta- og sakarkostnaðar. Sjá hér og síðan kom úr eftirfylgniskýrsla 2012 sjá hér.  Í stuttu máli þá innheimtist aðeins lítill hluti dómsekta vegna skattalagabrota. Algengt er að þau séu fullnustuð með samfélagsþjónustu, þ.e. í stað þess að borga sektina eða sitja í fangelsi er refsingin tekin út í samfélagsþjónustu. Í Danmörku, Svíþjóð og Danmörku er mun meiri áhersla lögð á að innheimta þessar sektir og hvergi nema hér er leyfilegt að fullnusta vararefsingu vegna fésekta með samfélagsþjónustu. Það eru ýmsir vinklar á þessu máli og hér að neðan má sjá orðaskipti mín og innanríkisráðherra.

Brynhildur:
Virðulegi forseti. Árið 2009 gaf Ríkisendurskoðun út skýrslu sem bar yfirskriftina Eftirlit með innheimtu sekta og sakarkostnaðar. Í henni leitaðist Ríkisendurskoðun við að meta hvernig staðið væri að innheimtu sekta og sakarkostnaðar sem dómstólar úrskurðuðu á árunum 2000–2006. Fyrir rétt rúmu ári kom út önnur skýrsla um eftirfylgni og í henni var í rauninni verið að skoða hvernig og hvort hefði verið brugðist við þeim ábendingum sem gerðar voru í skýrslunni frá 2009. Í nýrri skýrslunni kemur fram að ráðuneytið sé að vinna í ýmsum málum og brugðist hafi verið við um helmingi athugasemda. Það er aldeilis ekki nóg.
Í skýrslunni segir Ríkisendurskoðun að það sé verulegt áhyggjuefni hve illa gangi að innheimta dómsektir. Orðrétt segir, með leyfi forseta:
„Ljóst er að grípa þarf til markvissra aðgerða til að stuðla að því að þær“ — þ.e. dómsektirnar — „skili sér í ríkissjóð, eins og markmiðið hlýtur að vera. Á sama hátt ætti að leitast við að draga eins og hægt er úr því að slíkar sektir séu afplánaðar með vararefsingu í fangelsi eða fullnustaðar með samfélagsþjónustu.“
Ríkisendurskoðun ítrekar nokkrar fyrri ábendinga sinna sem snúa meðal annars að því að bæta aðgengi innheimtuaðila að fjárhagsupplýsingum, lögfesta heimild til að draga sektarfjárhæð frá launum, tengja upplýsingakerfi allra aðila réttarvörslukerfisins, rýmka heimildir til greiðslusamninga og takmarka heimildir til að fullnusta vararefsingu fésekta með samfélagsþjónustu. Þetta fær töluvert rými í skýrslunni.
Ríkisendurskoðun telur óeðlilegt að vararefsing fésekta sé fullnustuð í jafn ríkum mæli og nú er gert með samfélagsþjónustu og segir að það megi beinlínis færa rök fyrir því að þetta fyrirkomulag eigi nokkurn þátt í því hve lítill hluti dómsekta skilar sér í ríkissjóð og að með þessu sé vegið að þeim varnaðaráhrifum sem háum sektum eða fangelsisvist vegna skattalagabrota sé ætlað að hafa.
Ráðuneytið bendir á að nefnd hafi verið að störfum við að semja drög að nýju frumvarpi. Í ljósi þess að ár er liðið síðan skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út vil ég spyrja hæstv. ráðherra hver staðan sé núna og hvar þessi frumvarpsvinna liggi. Ríkissjóður er tómur, það munar um hverja krónu og því er sérstaklega bagalegt og í rauninni mjög alvarlegt að ekki takist betur til við að innheimta fésektir. Það hlýtur að vera áhyggjuefni og tilefni til að hraða þeirri vinnu sem virðist vera í gangi.
Spurningarnar eru eftirfarandi:
1. Tekur ráðherra undir sjónarmið í umræddri skýrslu Ríkisendurskoðunar um að bæta þurfi núverandi kerfi við innheimtu dómsekta?
2. Hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir þeim ábendingum sem koma fram í skýrslunni?
3. Hvað líður heildarendurskoðun laga um fullnustu refsingar, nr. 49/2005, en leggja átti slíkt frumvarp fram á síðasta ári?
4. Telur ráðherra eðlilegt að hægt sé að fullnusta fésektir vegna skattalagabrota með samfélagsþjónustu?
5. Hvað áætla stjórnvöld að innheimtist af fésektum vegna skattalagabrota á árinu 2014?

Innanríkisráðherra:
Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og að taka þetta mál upp hér á þingi. Þeirri formlegu spurningu var beint til mín hvort ráðherra tæki undir sjónarmið í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá október 2012. Já, ég tek undir þau sjónarmið. Ég held að það sé enginn vafi á því að við verðum að gera betur. Við verðum að huga að því hvernig við gerum það. Auðvitað verðum við alltaf að horfast í augu við það að eitthvað af þessu fjármagni mun ekki innheimtast en miðað við þær tölur sem eru útistandandi er alveg ljóst, eins og hv. þingmaður benti á, að við verðum að gera betur.
Það er allt rétt sem kom fram í máli þingmannsins. Í undirbúningi er frumvarp um fullnustu refsinga þar sem meðal annars er tekið tillit til ábendinga Ríkisendurskoðunar sem fram koma í skýrslunni sem farið var yfir áðan. Um er að ræða, líkt og hv. þingmaður nefndi, tillögur um launaafdrátt, auknar heimildir fyrir innheimtuaðila til að afla upplýsinga um fjárhagsstöðu skuldara o.s.frv.
Staðan í verkefninu nákvæmlega núna — því að að því er spurt — er sú að í ráðuneytinu er verið að fara yfir einstök ákvæði frumvarpsins en ráðherra, þ.e. sú sem hér stendur, hefur ekki tekið afstöðu til einstakra þátta í því. Ég óskaði eftir því þegar ég kom í ráðuneytið að fá tækifæri og tíma til að fara betur yfir þetta verkefni þannig að miðað hefur verið við að leggja frumvarpið fram í byrjun árs 2014. Það er það tímaviðmið sem núna er viðhaft og við vinnum út frá í ráðuneytinu.
Ég þarf ekki að nefna það, ég veit að hv. þingmaður og þingheimur er vel upplýstur um það, að sektir og sakarkostnaður sem er útistandandi á Íslandi er mjög hár og við verðum að ná árangri við að innheimta það fé. Það getur sannarlega skipt máli til þess að endurheimta fjármagn sem ríkissjóður hefur lagt út í formi sakarkostnaðar.
Síðan er spurt að því hvernig ráðherra hyggist fylgja eftir þeim ábendingum sem fram koma í skýrslunni. Ég lít svo á að ég hafi svarað því í fyrri spurningunni með því að útskýra hver staðan er á frumvarpi til nýrra laga um fullnustu refsinga, sem er til skoðunar. Ég þreytist aldrei á að nota tækifærið þegar við erum að ræða um mál er tengjast þessu að nefna mikilvægi þess að nýtt fangelsi rísi á Hólmsheiði og okkur takist þannig að vinna aðeins betur að því að fjölga afplánunarrýmum og auka sveigjanleika sem getur leitt til þess að hægt verði að nýta fleiri fangarými undir vararefsingu fésekta svo að það komi líka fram.
Síðan varðandi það hvort eðlilegt sé eða æskilegt að hægt sé að fullnusta fésektir vegna skattalagabrota með samfélagsþjónustu, þá er það hægt samkvæmt gildandi lögum. Þar er ekki gerður neinn greinarmunur á fullnustu fésekta eftir brotaflokkum. Ég verð að segja það með mikilli virðingu fyrir umræddri skýrslu og þeim áhyggjum sem þar koma fram um fyrirkomulag og þýðingu samfélagsþjónustu sem fullnustuúrræðis að mér finnst aðeins bera á því að menn sjái ekki kostina í því úrræði. Oft er gert lítið úr úrræðinu og látið eins og menn taki það ekki alvarlega. Reynslan sýnir okkur annað. Ég held að við verðum að átta okkur á því að þetta er einn af þeim þáttum í úrræðum hvað þetta varðar sem við verðum að byggja á. Það er oft og tíðum skynsamlegt að beita samfélagsþjónustu ef kostur er og losa samfélagið þannig við þær neikvæðu afleiðingar sem fangelsisvist getur haft og hefur oft í för með sér. Auk þess sem á það hefur verið bent að endurkomutími þeirra sem sinna samfélagsþjónustu er mun minni en annarra.
Síðan er spurt, eðlilega, hvað stjórnvöld áætli að innheimtist af fésektum vegna skattalagabrota á árinu 2014. Ég verð því miður að upplýsa þingmanninn um það að innheimta sekta er ekki og hefur ekki verið flokkuð eftir brotaflokkum og því er ekki hægt að ná út úr innheimtukerfinu upplýsingum um einstök brot. Þess vegna get ég ekki svarað þingmanninum án þess að fram fari sérstök úttekt á því og vinna í kringum það. Það er ekki hægt að áætla innheimtu á fésektum vegna skattalagabrota á árinu 2014. Það er auðvitað nokkuð sem við þurfum að huga að í kerfinu, að við getum ekki greint þessar upplýsingar svo auðveldlega nema farið sé í sérstaka greiningu þar á.

Brynhildur:
Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargóð svör. Það er alveg rétt, sem bent er á, að samfélagsþjónusta er ágætt úrræði — ég hefði kannski átt að hafa spurninguna aðeins skýrari. En eitt af því sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar er að í raun er enginn munur á upphæð sektar. Sá sem skuldar 80 milljónir getur fullnustað dóminn með samfélagsþjónustu og það getur aldrei verið eðlilegt. En með lægri sekt, þá mætti kannski horfa í gegnum fingur sér með það. Það er líka rétt að skortur á fangelsisrými hefur verið vandamál þannig að nýtt fangelsi á Hólmsheiði bætir kannski þar úr.
Ég ætlaði líka að spyrja um tímasetningar en það kom fram í svari hæstv. ráðherra. Ég mun þá bara bíða eftir því að frumvarpið verði lagt fram og ef mig fer að lengja eftir svörum kalla ég aftur eftir umræðu við hæstv. ráðherra.

Innarríkisráðherra:
Virðulegur forseti. Ég vil einungis ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns fyrir að halda þessu máli vakandi og lifandi. Það er gríðarlega mikilvægt. Einhverjir gætu litið svo á að þetta væru einungis tæknilegar útfærslur á niðurstöðu nefndar eða niðurstöðu ákveðinnar skýrslu. Það eru þarna, eins og ég sagði áðan, gríðarlega háar upphæðir, þetta hleypur á milljörðum og sannarlega þess eðlis og efnis að við eigum að taka á því.
Einnig tel ég mjög brýnt — þess vegna hvet ég hv. þingmanninn til að rukka um þau svör ef ekkert fer að bera á frumvarpinu í byrjun árs 2014 líkt og við stefnum að — að ræða fyrirkomulag sekta og sektarkostnaðar og ekki bara það heldur líka fullnustu refsinga og hvernig kostnaði í kringum dómskerfið okkar verður ráðstafað eins haganlega og við mögulega getum. Það skiptir gríðarlega miklu máli að við gerum það, þarna eru mjög háar tölur á ferðinni.
Stundum finnst mér eins og þessi viðfangsefni séu svo tæknilegs eðlis að þau verði ekki mjög lifandi eða áberandi í opinberri umræðu. Þá minni ég á að hér er á ferðinni risastórt mál fyrir mjög marga einstaklinga og líka risastórt mál fyrir ríkissjóð, að tryggja að þessir peningar séu vel nýttir. En tilgangurinn er auðvitað á endanum alltaf sá að út úr þessu kerfi okkar komi einstaklingarnir betri en þeir koma að í upphafi.
Ég fagna umræðunni og vona að hún haldi áfram. Ég vona að okkur takist að tryggja að frumvarpið verði lagt fram innan þess tíma sem gert er ráð fyrir.