Fjárlög 2014

Hér eru loksins smá upplýsingar um fjárlagavinnuna sem fór fram í lok síðasta árs, svona út frá mínum bæjardyrum séð.

Stjórnvöld lögðu fjárlagafrumvarpið fram 1. október sl., tveimur vikum seinna en venjulega þar sem orðið höfðu stjórnarskipti á árinu. Það var því ekki óeðlilegt að ný ríkisstjórn fengi meiri tíma til að vinna frumvarpið. Blekið var þó vart þornað þegar farið var að boða fjölmargar breytingar. Á milli 1. og 2. umræðu voru t.d. settir inn rúmir fjórir milljarðar í heilbrigðiskerfið og þá þurfti að skera niður á móti. Síðan voru gerðar margvíslegar breytingartillögur allt fram á síðasta dag. Reyndar eru allar breytingatillögur í nafni meirihlutans og ég átta mig því ekki á því hvaða breytingar eru raunverulega frá ríkisstjórninni og hvað frá meirihlutanum. Mér fannst fjárlagavinnan frekar ómarkviss og það kom berlega í ljós hversu mikilvægt það er að frumvarpið sem lagt er fram að hausti sé vel unnið, þ.e. að stjórnvöld séu búin að gera það upp við sig þegar þau leggja fram fjárlagafrumvarp hvernig þau ætla að útdeila fjármagni.

Fjárlögin miða við hallalausan rekstur árið 2014 sem er mjög jákvætt. Ríkið getur ekki haldið áfram að safna skuldum. Hins vegar eru margir veikleikar í frumvarpinu og ég stórefa að ríkisreikningur fyrir árið 2014 (þegar búið verður að gera árið upp) muni sýna hallalausan rekstur. Fjárþörf er víða mikil eftir niðurskurð undanfarinna ára og dæmi eru um að skorið sé niður í fjárlagaliðum sem hafa ítrekað verið reknir með halla. Það er gert án þess að þjónustan sé skert eða gripið til annarra ráðstafana sem tryggja að tekjur dugi fyrir útgjöldum.

Ríkisstjórnin skar niður öll verkefni sem féllu undir fjárfestingaráætlunina sama hvaða nafni þau nefnast og gagnrýndum við það eins og lesa má í nefndaráliti Bjartrar framtíðar. Þá var fyrsta verk ríkisstjórnarinnar að hætta við fyrirætlaða hækkun á virðisaukaskatti á gistingu en var áætlað að sú hækkun myndi skila 500 milljónum árið 2013 og einum og hálfum milljarði á ári eftir það. Einnig var ákveðið að lækka tekjuskatt á milliþrepið og veiðigjöld voru lækkuð miðað við fyrri áform.
Sjá nefndarálit fyrir 2. umræðu hér
Á milli 2. og 3. umræðu urðu þær breytingar helstar að inn komu 20 milljarðar á tekjuhliðina (bankaskattur) og 20 milljarðar á útgjaldahliðina sem veita á til niðurfellingar á verðtryggðum fasteignalánum. Alls verða þetta 80 milljarðar á fjórum árum. Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa miklar efasemdir um þessa framkvæmd og var eini flokkurinn sem greiddi atkvæði gegn þessum lið, þ.e. 20 milljörðum á útgjaldahliðinni. Í atkvæðaskýringu okkar kom fram að tekjurnar sem eiga að fjármagna þessar aðgerðir eru ekki fastar í hendi en leggja þarf fram 20 milljarða á ári næstu fjögur árin. Þá sé ávinningurinn af þessum aðgerðum óljós.
Sjá nefndarálit vegna 3. umræðu hér