Fjáraukalög 2013

Fjáraukalög voru lögð fram 26. nóvember 2013 sem var óvenju seint og komu þau því beint ofan í fjárlagavinnuna en fjárlagafrumvarpið hafði líka verið lagt fram seinna en venjulega. Breytingartillögur meirihlutans voru síðan ekki kynntar fjárlaganefnd fyrr en 6. desember.
Fjáraukalög eru sett fram seinni part árs og eru eins konar leiðrétting á fjárlögum yfirstandandi árs. Ýmislegt óvænt getur komið upp yfir árið sem kallar á útgjöld sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum. Fyrir utan óvænt atvik (t.d. náttúruhamfarir) geta kjarasamningar sem gerðir eru á árinu eða ný löggjöf kallað á aukin fjárútlát. Leita þarf heimildar Alþingis fyrir öllum útgjöldum ríkissins og því þarf að samþykkja fjáraukalög fyrir áramót.

Í fjáraukalögum 2013 eru ansi margir útgjaldaliðir sem ekki eru óvæntir eða ófyrirséðir og gerði minni hlutinn ítarlega grein fyrir sjónarmiðum í nefndaráliti sínu. Mörg dæmi eru um að stofnanir fari fram úr fjárheimildum og safnar stofnunin þá halla sem hún verður að greiða niður síðar. Á sama tíma eru dæmi um að stofnun fái framlög á fjáraukalögum til að bregðast við rekstrarvanda en ekki óvæntum áföllum. Hér verður að gæta jafnræðis. Minni hlutinn gagnrýndi einnig að flutningur málaflokka milli ráðuneyta eigi sér stað á miðju ári sem eykur flækjustigið og kallar á aukna vinnu. Eðlilegra er að verkefni flytjist á milli ráðuneyta um áramót þegar nýtt bókhaldsár byrjar. Mesta flækjustigið er í kringum forsætisráðuneytið sem tók til sín málaflokka sem áður heyrðu að mestu undir menntamálaráðuneytið. Ekki virðist hafa farið fram neitt fagleg mat eða greining á því hvar þessum verkefnum væri best fyrirkomið.

Hér eru dæmi um heimildir sem voru samþykktar og minni hlutinn gagnrýndi;

Forsetaembættið fór fram á og fékk samþykkta 14 m.kr. vegna eftirfarandi : Endurnýjunar á bílakosti og tölvubúnaði, opinberra heimsókna forsetans til annarra landa, heimsóknar Margrétar Danadrottingar vegna hátíðarhalda í tilefni af því að 350 ár voru liðin frá fæðingu Árna Magnússonar, smíði á fálkaorðum sem fram fer á nokkurra ára fresti og viðhalds á gestahúsi við Laufásveg. Ekki er að sjá að neinn þessara liða geti flokkast sem óvænt útgjöld. Um er að ræða útgjöld sem eiga rúmast innan þess rekstrarfé sem forsetaembættið fær.

Alþingi og rannsóknarnefndir Alþingis fengu 380 m.kr. Rannsóknarnefndirnar hafa allar farið fram úr áætlunum og í raun er óskiljanlegt hvernig þessi verkefni hafa blásið út og það án þess að nokkur virðist telja sig bera ábyrgð.

Ríkisstjórnin fór fram á tæplega 100 m.kr. vegna aukins kostnaðar við fjölgun ráðherra og aðstoðarmanna auk uppgjörs biðlauna og orlofsuppgjörs. Bæði ætti að gera ráð fyrir auknum útgjöldum á kosningaári í fjárlögum ársins því það má búast við breytingum á ráðherraliðinu og síðan er áhyggjuefni að sjálf ríkisstjórnin skuli ekki halda sig innan fjárlagarammans en aðstoðarmenn ráðherra eru orðnir 17 og ráðuneytunum var fjölgað úr átta í níu og er jafnvel útlit fyrir að þeim fjölgi meira.

Sérfræðinganefndir ríkisstjórnarinnar vegna skuldaniðurfellinga fékk 40 m.kr. en skv. lögum um þingsköp Alþingis þá á að áætla kostnað sem kann að falla til vegna þingsályktunartillagna eða frumvarpa og gagnrýndi minni hlutinn að ríkisstjórnin gengi ekki á undan með góðu fordæmi.

Undir forsætisráðuneytinu var liður upp á 165,5 m.kr. sem skipta átti á milli Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunar Íslands. Ekki er að sjá að þarna sé um óvænt útgjöld að ræða. Ég er reyndar búin að senda inn skriflega fyrirspurn til að fá útskýringar á þessum lið og bíð svara. Undir þessum sama lið er einnig 15,5 m.kr. framlag í mjög óskilgreint verkefni sem snýr að væntanlegu frumvarpi um verndarsvæði í byggð. Þessi vinna virðist ekki hafin og getur varla flokkast sem óvænt útgjöld. Ekki virðist hafa farið fram neitt fagleg mat eða greining á því hvar þessum verkefnum væri best fyrirkomið.

Minni hlutinn gagnrýndi sérstaklega að færa ætti 300 m.kr hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem ekki voru nýttar árið 2013 vegna styttingar stúdentsprófs yfir á árið 2014. Rétt væri að þessi upphæð félli niður á árinu 2013 (kæmi til frádráttar í fjáraukanum) og væri svo sett inn í fjárlög 2014. Þar með kæmi árið 2013 vissulega aðeins betur út en að sama skapi yrði fyrirhugaður afgangur á árinu 2014 mjög lítill. Ríkisendurskoðun var kölluð til og tók undir afstöðu minni hlutans og hætti meirihlutinn því við þessi áform.

Minni hlutinn gagnrýndi að Landspítalanum yrði ekki bætt fjárveiting sem samþykkt var snemma árs 2013 vegna óvenju skæðra inflúensufaraldra. Einnig var gagnrýnt og að fjárskiptasjóður ætti ekki að fá markaðar tekjur upp á 195 m. kr. eins og honum var ætlað og er mikilvægt til að geta byggt upp betra netsamband á landsbyggðinni.

Hér hefur verið stiklað á stóru en nefndarálitið í heild má lesa hér.

Það var athyglisvert að sjá hvað liðir á fjáraukalögum sem ekki áttu heima þar runnu í gegnum þingið. Það finnst mér ekki lýsa þeim aga sem ríkisstjórnin talar ítrekað um. Ég hafði reyndar á tilfinningunni að ekki væri mikið kapp lagt á að láta árið 2013 líta betur út en nauðsynlegt væri, það ár væri á ábyrgð fyrri ríkisstjórnar. Hins vegar var gengið mjög langt til að tryggja að fjárlög 2014 væru hallalaus. Ég er því spennt að sjá hvort það verður munur á framsetningu næsta fjáraukalagafrumvarps þ.e. hvort jafn margir fjárlagaliðir sem ekki eiga heima á fjáraukalögum renni jafn auðveldlega í gegnum þingið.