Fjárlagafrumvarp 2015 – vinnubrögðin

Nú hef ég tvisvar sinnum upplifað að fara í gegnum fjárlagavinnuna og margt hefur komið á óvart, sérstaklega hvað varðar vinnubrögðin. Hér stikla ég á stóru.

Frumvarpið ekki tilbúið?
Líkt og á árinu 2013 var vart búið að leggja fjárlagafrumvarpið fram fyrr en ríkisstjórnin var farin að vinna að breytingum á eigin frumvarpi. Á sama tíma fjallaði fjárlaganefnd um málið, fékk til sín gesti og kallaði eftir svörum varðandi þá þætti sem voru óljósir. Fyrir 2. umræðu og aftur fyrir 3. umræðu komu síðan stjórnvöld og meirihlutinn með slatta af breytingartillögum (um 140 alls) sem splæst er saman í einn pakka. Það er auðvitað ekki óeðlilegt að fjárlagafrumvarp taki einhverjum breytingum í meðförum þingsins og í sumum tilfellum er verið að leiðrétta mistök eða koma til móts við gagnrýni. Þegar hins vegar svo viðamiklar breytingar eru gerðar á milli umræðna bendir það til þess að undirbúningi við sjálft frumvarpið sé ábótavant. Það sé einfaldlega ekki tilbúið þegar það er lagt fram í upphafi þings. Þá gefur þessi hringlandaháttur til kynna að stefna stjórnvalda liggi ekki fyrir í einstaka mikilvægum málaflokkum. Sem dæmi þá hækkuðu fjárveitingar verulega til Landspítalans á milli 1. og 2. umræðu í frumvarpinu fyrir 2015 en einnig fyrir 2014. Það er því engu líkara en að stjórnvöld viti ekki í lok ágúst hver fjárþörf Landspítalans er næsta árið eða hafi hreinlega ekki fastmótaða skoðun á því hversu há framlögin ættu að vera.

Breytingar engin undantekning
Mér lék forvitni á að vita hvort ekki væri um að ræða óvenju margar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið og skoðaði síðuna fjarlog.is sem nær aftur til 1998. Þá uppgötvaði ég að hér er ekkert nýtt á ferð. Á milli umræðna er alvanalegt að breytingatillögum sé hrúgað inn og jafnvel má sjá einstaka liði sem fá hækkun milli umræðna ár eftir ár. Þá hlýt ég að spyrja; Af hverju fá þessir fjárlagaliðir ekki bara þau fjárframlög í upphafi sem þeim er greinilega ætlað? Hvaða leikur er þetta? Er það taktík að valda fyrst vonbrigðum í frumvarpinu sjálfu og koma svo með glaðning í formi breytingartillögu þegar líður að jólum? Ef stjórnvöld vanda til verka í upphafi ættu þau ekki að þurfa að „laga“ eigið frumvarp og breyta því hægri vinstri. Í raun ættu breytingartillögur við frumvarpið fyrst og fremst að koma frá fjárlaganefndinni sem ekki hefur haft neina aðkomu að gerð fjárlagfrumvarpsins. Þá er athyglisvert að á meðan frumvarpið fyrir 2015 var til umræðu gáfu nýjar hagspár til kynna að tekjur ríkissjóðs árið 2015 yrðu meiri en gert hafði verið ráð fyrir nokkrum vikum fyrr. Þá tóku menn sig til og bættu í útgjöldin rétt eins og tekjurnar væru þegar í hendi.

Aukið á óvissu
Það virðist fara lítið fyrir langtímahugsun þegar opinber fjármál eru annars vegar. Mikil óvissa er um fjárveitingar til einstakra málaflokka, ekki bara á milli ára heldur líka á milli umræðna. Flestir eru sammála um að mikilvægt sé að horfa til lengri tíma þegar verið er að áætla útgjöld ríkisins þannig að stofnanir og aðrir þeir sem njóta framlags af fjárlögum geti gert langtímaáætlanir og séu ekki háðir óvissu fjárlaga hvers árs. Allir tala um aga og festu í ríkisfjármálum en hvers vegna eru vinnubrögðin þá ekki betri? Miklar vonir eru bundnar við ný lög um opinber fjármál sem væntanlega verða samþykkt á vorþingi og þverpólitísk sátt er um. Þar er m.a. gert ráð fyrir mun meiri langtímahugsun í ríkisfjármálum en við eigum að venjast. Það horfir því vonandi til betri vegar en hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að bæta vinnubrögðin hér og nú.

Gamaldags vinnubrögð endurvakin
Lengi vel tíðkaðist að einstaklingar og samtök ýmis konar komu fyrir fjárlaganefnd til að rökstyðja umsóknir sínar um fjárframlög. Nefndin úthlutaði síðan fjármunum og þá gátu persónuleg tengsl við nefndarmenn skipt miklu máli. Þessu verklagi var síðan breytt á síðasta kjörtímabili, í þverpólitískri sátt, og umsækjendum vísað á ráðuneytin. Var talið að það myndi betur tryggja jafnræði á milli umsækjenda. Ég upplifði ekki annað en almenn ánægja væri með þessa breytingu. Það kom því á óvart þegar meirihlutinn ákvað að breyta verklaginu upp úr þurru. Rökin, ef ég skildi rétt, voru þau að þriðji geirinn (félagasamtök) hefðu gleymst og því hafi meirihlutinn ákveðið að leiðrétta þessi „mistök“. Þetta fannst mér með ólíkindum glötuð vinnubrögð og mjög fjarri þeim aga sem fjármálaráðherra, formanni og varaformanni fjárlaganefndar er svo tíðrætt um. Ég skal vera fyrsta manneskjan til að halda uppi vörnum fyrir félagasamtök sem gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki og sinna oft verkefnum betur og á hagkvæmari hátt en ríkið. Það eru vinnubrögðin sem ég er ósátt við. Ég hélt að við værum öll sammála um að það væri í alla staði óeðlilegt að einstaka stjórnmálamenn væru að deila út peningum úr opinberum sjóðum eftir eigin geðþótta. En þar greinir okkur greinilega á.

sjá nefndarálit Bjartrar framtíðar við 2. umræðu hér og við 3. umræðu hér