Eldhúsdagsumræður 1. júlí 2015

Virðulegi forseti. Þingheimur. Kæra þjóð. Eftir að ég byrjaði í stjórnmálavafstri hef ég verið að velta fyrir mér þeirri tilhneigingu okkar mannfólksins að líta þannig á að þegar hlutirnir ganga vel hjá okkur, þegar eitthvað heppnast, sé það okkur að þakka en ef eitthvað fer úrskeiðis, gengur ekki upp, leitum við að sökudólgum, kennum utanaðkomandi aðstæðum um.

Við viljum sem sagt helst ekki líta í eigin barm. Þessi tilhneiging er sérstaklega áberandi meðal stjórnmálamanna. Það er kannski vegna þess að við þurfum öðrum fremur að sannfæra fólk um ágæti okkar, réttlæta tilvist okkar, og þá getur verið mjög freistandi að eigna sér allt sem vel er gert en kenna öðrum um mistökin. Ég hugsa oft um þetta þegar ég heyri suma stjórnarliða og ráðherra halda því fram að hér hafi orðið einhver stórkostleg vatnaskil í kosningunum 2013, eins og við værum hér í djúpri kreppu og hagvöxtur hefði beinlínis stöðvast ef Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hefðu ekki komið eins og frelsandi englar. En það er auðvitað ekki þannig, efnahagslegar aðstæður skýrast af óteljandi þáttum og á marga þeirra höfum við stjórnmálamenn engin áhrif. Það er ekki eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra fari í þyrlu út á miðin og hreki makrílinn inn í íslenska lögsögu. Makríllinn kemur eins og honum þóknast og hann getur farið aftur. Sama á við um ferðamennina þótt við höfum eflaust aðeins meiri áhrif á ferðamannastrauminn.

Vaxtastig og staða í helstu viðskiptalöndum hefur áhrif á okkur, heimsmarkaðsverð á olíu hefur til dæmis valdið því eða er meðal þess sem veldur því að verðbólgan á Íslandi hefur verið mjög lág. Stjórnvöld hafa þakkað sér þetta lága verðbólgustig en hverjum er það þá að kenna þegar verðbólgan eykst? Ég hlakka til að heyra þær útskýringar þegar þar að kemur.

Mér finnst líka annað einkenna stjórnmálin. Það er mjög freistandi að mála hlutina sterkum litum, málin eru annaðhvort svört eða hvít, góð eða vond. Fólk í stjórnmálum á að hafa skýrar og sterkar skoðanir, tala tæpitungulaust, og ég skil að vissu leyti þessa kröfu, en sjálfri finnst mér oft svo margar hliðar á málum og stundum hálfvandræðalegt hvað ég er semi-sammála sumu og sumpart á móti öðru. Ég vil þó taka fram að ég var alfarið á móti skuldaniðurfellingunni og ég var alfarið á móti því að hætta aðildarviðræðum við ESB og ég þakka guði fyrir að ítrekaðar tilraunir hæstv. utanríkisráðherra hafa ekki borið tilætlaðan árangur.

Ég er eiginlega komin á þá skoðun eftir tvö ár á þingi að vissulega skipti máli hvaða stefnu flokkar hafa, og þjóðin ákveður í kosningum hversu langt hún vill fara ýmist til vinstri eða hægri og hvaða stefnumál hún vill sjá ná fram að ganga, en mér finnst ekki síður skipta máli að okkur auðnist að velja fólk til valda sem sýnir auðmýkt gagnvart starfinu, fólk sem skilur mikilvægi þess að leita samstöðu þvert yfir flokkslínur, fólk sem lítur ekki á stjórnmál sem stríð. Það er fullt af svoleiðis fólki á þingi. Ég get í sannleika sagt að ef ég mætti kjósa í persónukjöri væri fólk úr öllum flokkum á mínum lista.

Við í Bjartri framtíð viljum leggja okkur fram um að vera málefnaleg og leggjast ekki í einhverja flokkadrætti heldur koma fram af virðingu við kollega okkar. Við reynum að leggja gott til. Ég verð bara að viðurkenna að það er heilmikil áskorun og erfiðara en ég hélt. Ég hef meira að segja setið á aftasta bekk og gólað, verið með frammíköll þegar mér líkaði ekki eitthvað sem ræðumaður sagði. Ég nota tækifærið hér til að biðjast afsökunar á því og ætla að taka flokksfélaga minn úr Bjartri framtíð, hv. þm. Eldar Ástþórsson, á orðinu en í fyrr í dag stakk hann upp á því hér í þingsal að við hættum alfarið frammíköllum sem engu skila.

Ég ætla að enda á að viðra áhyggjur mínar af þeirri upplausn sem ríkir á Alþingi. Mér finnst þingstörfin sífellt í uppnámi, okkur virðist fyrirmunað að plana eitt eða neitt fram í tímann og við eigum að heita æðsta stofnun landsins. Mér finnst þetta óásættanlegt og þessu verðum við að breyta. Þá verða stjórnarherrarnir að líta í eigin barm. Málflutningur hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, hérna áðan vekur mér smávon í brjósti.

Við skuldum þjóðinni einfaldlega að á þessum vinnustað ríki þokkalegur friður. Í raun ætti markmiðið að vera að Alþingi væri sem minnst í fjölmiðlum. Það væri merki um að allt gengi vel, að hér væri vinnufriður. Það eru nefnilega átökin sem þykja fréttnæm.