Fangelsi og forgangsröðun

Málefni fanga eru mér hugleikin. Við erum með kerfi sem er þannig að við dæmum fólk í fangelsi en það er ekki þar með sagt að við viljum dæma það úr leik í lífinu. Það má ekki verða þannig og mér finnst það vera skylda okkar að hjálpa þeim sem villast af braut til að takast aftur á við lífið utan fangelsismúranna.

Ég held að allir geti lent á glapstigum. Sumir eru heppnari en aðrir í lífinu. Sumir fá allt upp í hendurnar, aðrir fá ekkert. Sumir geta unnið sig út úr erfiðleikum, aðrir ekki. Sumir fá aðstoð þegar áföll verða, aðrir ekki. Sumir höndla áfengi án nokkurs vanda, aðrir ánetjast við fyrsta sopa. Það fæðist enginn sem afbrotamanneskja en örlögin geta stundum hagað því þannig að sumir leiðast út í glæpi. Margir sem taka út sína refsingu brjóta aldrei af sér aftur en allt of margir lenda aftur í fangelsi.

Það er eins og þessi málaflokkur hafi setið á hakanum og það getur reynst okkur dýrkeypt. Forstjóri Fangelsismálastofnunar sagði í fréttum nýlega að nú væru 160 fangar í 150 plássum og 450 manns bíða eftir að geta hafið afplánun. Nýtt fangelsi á Hólmsheiði leysir ekki allan þann vanda. Þetta þýðir að afbrotamenn halda sumir áfram í afbrotum á meðan þeir bíða dóms og svo er hitt að dæmdir einstaklingar þurfa að bíða allt of lengi áður en þeir hefja afplánun. Sumir hverjir eru þá komnir á beinu brautina, með vinnu, fjölskyldu hugsanlega og margir mánuðir, ár jafnvel, hafa liðið frá því að afbrotið átti sér stað. Þá er ekki eins og dómskerfið vinni mjög hratt, það er líka fjársvelt og ofhlaðið og oft tekur allt of langan tíma að fá dómsniðurstöðu, ekki síst ef dómi er áfrýjað.

Við ættum að hafa tvö markmið: Að sem fæstir leiðist út í afbrot og að þeir sem það gera og lenda í fangelsi komi út sem betri manneskjur. Að fangelsisdvölin nýtist sem best til að auka líkurnar á að fangi nái að fóta sig þegar afplánun lýkur. Þá skiptir máli að fangar fái aðstoð svo sem sálfræðihjálp, aðstoð frá námsráðgjafa, sé gert kleift að stunda nám, fái aðstoð við vímuefnavanda og stuðning þegar afplánun lýkur.

Vitað er að stór hluti fanga glímir við ofvirkni og athyglisbrest (ADHD) eða aðrar skyldar raskanir sem og vímuefnavanda. Þessar raskanir eru án nokkurs vafa mjög stór þáttur í því að þeir lenda utangarðs í samfélaginu, hætta jafnvel í skóla og ánetjast áfengi og öðrum vímuefnum. Það er því mjög mikilvægt að greina þessar raskanir sem fyrst og bregðast við þeim.

Ef við ætlum að breyta um kúrs í fangelsismálum þarf að móta stefnu til langs tíma. Við getum sparað til lengri tíma með því að bæta kerfið í dag. Hver fangi kostar ríkið um 9 milljónir króna á ári er mér sagt. Ef við tökum upp öfluga betrunarstefnu eru meiri líkur á að fangar sem hafa lokið afplánun verði virkir samfélagsþegnar og komi ekki aftur í fangelsi.

Vandinn er hins vegar sá að við erum alltaf að spara til skemmri tíma. Við hugsum allt í fjórum árum. Stjórnvöld setja ekki pening í eitthvað í dag sem mun skila sér til baka mörgum árum síðar. Ég veit ekki einu sinni hvort stjórnvöld hafi einhverja stefnu í fangelsismálum aðra en að skera niður hjá Fangelsismálastofnun. Það þarf að hugsa þetta upp á nýtt og móta stefnu til margra ára og draga alla að borðinu, gera alla „samábyrga“. Það er nefnilega líka of algengt að ný stjórnvöld hætti við góð verkefni fyrri stjórnvalda af því þau áttu ekki hugmyndina. Það er allavega tímabært að endurskoða fangelsismálin og refsistefnuna og Björt framtíð lýsir sig reiðubúna til þess verks.

Þessi grein birtist í DV 14. ágúst 2015