Réttur til að gefa blóð

Í sumum löndum mega karlmenn sem hafa haft samfarir við karla ekki gefa blóð. Í mörgum löndum er það þó heimilt með þeim skilyrðum að ákveðinn tími hafi liðið frá því að blóðgjafi hefur stundað kynlíf með karlmanni og getur sá tími verið frá einu ári og upp í tíu ár. Sums staðar er einungis gerð sú krafa að blóðgjafi hafi ekki stundað áhættusamt kynlíf (risky sexual behaviour) á þessu tímabili. Á Íslandi er körlum sem hafa haft mök við aðra menn ekki leyft að gefa blóð. Það þýðir að stórum hópi í samfélaginu, samkynhneigðum karlmönnum, er meinað að gefa blóð að ekki sé talað um aðra hópa svo sem tví- og pankynhneigða og aðra þá hópa karlmanna sem laðast að körlum. Þessar reglur eru að mörgu leyti mjög afturhaldssamar og miða við þann tíma þegar samkynhneigðir karlmenn voru í mestri hættu á að smitast af HIV veirunni.

Mörg lönd hafa endurskoðað þær ströngu reglur sem settar voru fyrir áratugum og nú síðast berast fréttir af því að Argentína hafi breytt reglum sínum. Sérfræðingar hafa bent á að mun fleiri hópar geta smitast af HIV veirunni en karlar sem hafa sofið hjá körlum og áhættuhegðun skipti meira máli en kynhneigð fólks. Horfa verði á hvern blóðgjafa út frá sögu hans en ekki hvort hann tilheyri „áhættuhópi“ eins og þeir hafa verið flokkaðir. Allt blóð er þar að auki skimað þannig að hættan á smiti í gegnum blóðgjöf í dag ætti að vera sáralítil. Þá er stundum skortur á blóði í Blóðbankanum sem hlýtur að vera áhættuþáttur út af fyrir sig og til mikils að vinna að fjölga blóðþegum.

Ísland er meðal þeirra landa sem ekki hafa endurskoðað reglurnar. Ég spurði heilbrigðisráðherra út í þetta mál á þingi síðasta vor og ekki var annað að skilja en ráðherra væri jákvæður gagnvart því að breyta reglunum. Hann bíður hins vegar eftir áliti ráðgjafanefndar um málið og það álit lætur á sér standa. Ég hef því lagt fram skriflega fyrirspurn um það hvað líði áliti nefndarinnar og hver sé afstaða ráðherrans til málsins en hún hlýtur að hafa eitthvað vægi. Að mati Bjartrar framtíðar eru það sjálfsögð mannréttindi að mega gefa blóð óháð kynhneigð árið 2015