Ár óttans

Eftir eitt og hálft ár fara fram kosningar til Alþingis. Fólk fer í auknum mæli að velta fyrir sér hvaða flokkar munu bjóða fram í næstu kosningum, hvaða flokkar séu sigurstranglegir og hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út. Á næstu mánuðum fara flokkar að skerpa á málefnastarfi og móta stefnur í hinum ýmsu málaflokkum sem lögð verður áhersla á í kosningabaráttunni. Síðan munu flokkarnir skiptast á skoðunum um aðild Íslands að Evrópusambandinu, stjórnarskrárbreytingar, fiskveiðistjórnunarkerfið, leiðir til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og stöðu heilbrigðismála svo dæmi séu nefnd. Flestallt málefni velkunnug Íslendingum enda búið að þræta um þessi sömu mál ár eftir ár án nokkurrar niðurstöðu. Það er þó einn málaflokkur sem verður pottþétt á dagskrá og við megum alls ekki klúðra.

Árið 2015 var ár hræðslunnar. Ótti getur verið notaður til sundrungar eða sameiningar. Óttinn við möguleikann á þriðju heimstyrjöldinni ýtti undir stofnun Sameinuðu þjóðanna og óttinn við átök á milli Þjóðverja og Frakka leiddi til stofnunar Evrópusambandsins. Undanfarið hafa valdamiklir einstaklingar aðallega notað ótta til sundrungar, sem hætta er á að leiði til útskúfunar, mismununar og átaka. Árið 2015 var nefnilega líka árið þar sem einn valdamesti maður Bandaríkjanna -ef litið er til umræðuvalds í fjölmiðlum – sagðist vilja banna múslimum að koma til Bandaríkjanna. Donald Trump fer ítrekað yfir strikið, hann elur á ótta og hann veit nákvæmlega hvað hann er að gera.

Hrætt fólk eru hræddir kjósendur. Hræddir kjósendur taka ákvarðanir byggðar á tilfinningum en ekki rökhyggju. Hræddir kjósendur kjósa flokka sem ala á hræðslu og tala inní orðræðu sem skiptir okkur í „við og hinir.“ Slíkir flokkar hafa átt velgengni að fagna í nágrannalöndum okkar. Látum hræðsluna ekki sigra heldur tökum skref til þess að opna landið okkar fyrir alls konar fólki sem auðgar íslenskt samfélag. Mörg rök eru fyrir því. Við þurfum t.d. fleiri vinnandi hendur og við höfum líka í meira lagi gott af því að auka fjölbreytnina í samfélagsflórunni.

Rannsóknir sýna að innflytjendur og flóttamenn hafa góð áhrif á samfélagið. Í leiðara The Economist voru nýlega færð rök fyrir því að „fólk sem ferðast yfir eyðimerkur og úthöf til að komast til Evrópu er ólíklegt til að vera slugsarar þegar það kemur.“ Innflytjendur greiða almennt skatta umfram það sem þeir fá frá hinu opinbera auk þess að koma með nýja þekkingu og færni inn í landið. Þeir eru líklegri en heimamenn til að stofna fyrirtæki og ólíklegri til að fremja alvarlega glæpi. Eftir því sem fólk tengist minna, eru minni líkur á spillingu eins og þrífst á Íslandi m.a. í formi frændhygli.

Stjórnmálamenn hafa vald, þeirra orð hafa vægi en völdum fylgir ábyrgð. Mikilvægt er að tala út frá staðreyndum. Ofangreindar staðreyndir eru byggðar á niðurstöðum rannsókna. Látum þessar staðreyndir heyrast hátt og vel árið 2016 og kosningaáriðið 2017. Segjum frá því hvernig við viljum sjá fjölmenningarsamfélagið Ísland þróast og mótum saman framtíðarstefnu í málefnum innflytjenda og flóttamanna. Það munum við í Bjartri framtíð gera. Við erum líka vel meðvituð um að það er áskorun að taka vel á móti fólki af erlendum uppruna. Það kostar tíma, fé og fyrirhöfn. Það krefst samráðs við einstaklingana sjálfa en það skilar sér margfalt til baka í betur nýttum mannauði og valdeflingu einstaklinga sem verða oft fyrir mismunun.

Það felast sóknarfæri í fjölgun innflytjenda auk þess sem okkur ber siðferðileg skylda til að veita fleiri flóttamönnum hæli. En ég óttast að orðræða í anda Donald Trump gæti skotið föstum rótum hér á landi og að hrædda fólkið verði sigurvegarar kosninganna 2017. Fyrir alla muni – látum það ekki gerast.

Birtist í Kjarnanum 28. des