Skipta vinnubrögð máli?

Það veldur mér nokkrum áhyggjum að fólk, sem ég veit að hefur áhuga á samfélaginu, viðurkenni opinberlega að það hreinlega sofni þegar vinnubrögðin á Alþingi eru rædd. Ég viðurkenni að umræðuefnið er kannski ekki beinlínis æsispennandi en það er mikilvægt. Ef vinnulagið, verklagið, skipulagið eða hvað við viljum kalla það er ekki faglegt á Alþingi getur það beinlínis bitnað á þjóðinni.

Ég gef mér að Sif Sigmarsdóttir sé m.a. að vísa til mín í pistli sínum í Fréttablaðinu 9. jan. þegar hún segir að Bört framtíð hafi verið upptekin af vinnubrögðunum á þingi. Ég hef nefnilega af og til rætt þessar áhyggjur mínar tvær mínútur í senn undir liðnum „störf þingsins“. Við sem höfum vakið máls á þessu erum ekki að tala um hvað sé í matinn í mötuneytinu, hvernig mæting sé á nefndarfundi, hver sé í námi eða hvort einhver mæti bindislaus eða í gallabuxum. Þetta eru mál sem fjölmiðlar eru uppteknari af en við þingmenn.

Það sem ég upplifi eftir hátt í þrjú ár á þingi, og eftir að hafa áður unnið á nokkrum „venjulegum“ vinnustöðum, er að skipulagsleysið sem viðgengst á Alþingi beinlínis bitnar á því mikilvæga starfi sem okkur er ætlað að sinna. Við sóum of oft tíma og kröftum ekki síst vegna þess að afar lítið er hægt að skipuleggja fram í tímann. Miðað við það sem ég hef kynnt mér skerum við okkur mjög frá þjóðþingum hinna Norðurlandanna hvað þetta varðar. Það eru margar ástæður fyrir þessari furðulegu menningu sem of langt mál er að rekja hér. En þetta þarf að laga því við vitum að líkurnar á góðri niðurstöðu aukast til muna ef vandað er til verka í upphafi. Það gildir um lagasetningu eins og allt annað. Ég hef t.d. verið sérstaklega gagnrýnin á vinnulagið í kringum fjárlögin og þar er nú ekkert smá mál á ferð. Það hefur áhrif á alla þjóðina með einum eða öðru hætti. Það er því ekki í neinum hálfkæringi eða af léttúð sem ég og fleiri höfum gagnrýnt hvernig þingstörfin ganga fyrir sig.

Í pistli sínum heldur Sif því fram að fólki standi á sama um það hvort mál komi komi seint eða snemma inn í þingið en því standi ekki á sama um mál eins og húsnæðismál, gjaldeyrisöft og menntamál. Staðan er þannig að ef þingið á að ræða mikilvæg mál sem varða almenning þá verða frumvörpin að koma inn í þingið og helst í tíma. Með öðrum orðum, ráðherrar verða að leggja málin fram annars er ekkert að ræða. Þingið virkar ekki þannig að þingmenn ráfi upp í ræðustól eftir því sem þeim hentar og tali um það sem þeim sýnist. Almenningur hefur því einmitt ríka hagsmuni af því að mál komi tímanlega inn í þingið enda óþolandi að þau séu unnin með hraði undir tímapressu. Það getur leitt til verri niðurstöðu og það eigum við ekki að sætta okkur við.

Ég hvet fjölmiðla til að sýna sjálfum þingstörfunum meiri áhuga og vera gagnrýnir á þau. Það er ekki einkamál þingmanna hvernig Alþingi vinnur og þjóðin á rétt á því að þeir tæplega 3 milljarðar sem Alþingi fær á fjárlögum nýtist sem best. Ég er alltaf til í þessa umræðu við alla sem hafa áhuga og treysti mér algerlega til að gera það án þess að svæfa nokkurn mann.

Birtist í Fréttablaðinu 12. jan 2016