Skaðleg efni í neysluvörum

Ef allt væri eðlilegt ættu neytendur ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að neysluvörur gætu innihaldið varasöm efni. En því miður hafa hagsmunir framleiðenda oftar en ekki ráðið ferð og leitt til þess að alls kyns skaðleg efni sem enginn bað sérstaklega um eru notuð í algengar neysluvörur. Upp úr seinni heimstyrjöldinni fór efnaiðnaðurinn á fullt og í nokkra áratugi kom aragrúi efna á markað án þess að þau væru áhættumetin með tilliti til áhrifa á heilsu og umhverfi. Fjölmörg þessara efna eru enn í notkun. Sum efnanna eru þrávirk, þau safnast upp í vefjum manna og dýra, önnur geta valdið skertri æxlunargetu (hormónaraskandi þar sem þau líkja eftir estrógeni í líkamanum), sum efni geta verið ofnæmisvaldandi eða jafnvel krabbameinsvaldandi. Um margvísleg efni og efnasambönd er að ræða sem finna má í hinum ýmsu vörum svo sem snyrtivörum, hreinsivörum,  leikföngum, fatnaði, raftækjum o.fl. Á undanförnum árum hefur vitneskjan um skaðleg áhrif ýmissa efna á heilsu og umhverfi orðið ráðamönnum tilefni til aðgerða og hefur Evrópusambandið m.a. sett lög sem miða að því að stemma stigu við þessari þróun.

Í Danmörku og Svíþjóð hafa stjórnvöld tekið þessi mál föstum tökum og mótað stefnu sem miðar að því að minnka skaðleg efni í okkar daglega lífi.  Lagt hefur verið kapp á að upplýsa fólk um skaðsemi ýmissa efna og hvernig hægt sé að forðast þau. Í fyrra samþykkti síðan norska þingið þingsályktun um að stjórnvöld skyldu gera aðgerðaráætlun um „giftfri hverdag“ eða líf án eiturefna.

Ekki hefur verið mótuð nein slík stefna hér á landi og þessi mál lítið verið rædd á þingi. Nú hafa þingmenn úr öllum flokkum lagt fram þingsályktunartillögu sem gengur út á að umhverfisráðherra móti stefnu um að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum og ekki síður að upplýsa neytendur um tilvist þessara efna og hvaða áhrif þau geta haft. Það er okkar mat að stjórnvöldum beri beinlínis skylda til að grípa til aðgerða og þótt fyrr hefði verið.

Brynhildur Pétursdóttir
þingkona Bjartrar framtíðar

Birtist í Fréttablaðinu 4. apríl