Fjármálastefna 2017-2021

Hér má sjá nefndarálit Bjartrar framtíðar um Fjármálastefnu stjórnvalda til fimm ára:

 
Með gildistöku laga um opinber fjármál voru stigin mikilvæg skref til að treysta umgjörð ríkisfjármála. Áhersla er lögð á stefnumótun til lengri tíma og aukinn aga við áætlunargerð. Langtímahugsun kemur m.a. fram í því að stjórnvöldum er gert að leggja fram fjármálastefnu og fjármálaáætlun til fimm ára í senn. Gera má ráð fyrir því að umræður um stefnumótun ríkisins, markmiðssetning og eftirlit verði markvissari fyrir vikið.
Hér er um að ræða fyrstu fjármálaáætlun og fjármálastefnu sem lagðar eru fram frá því að lög um opinber fjármál voru samþykkt. Ástæða er til að hrósa stjórnsýslunni fyrir mikilvæga vinnu við stefnumótun í 34 málefnasviðum. Í hverju málefnasviði eru lögð fram markmið og stefna og gerð grein fyrir helstu áherslum og aðgerðum.
Ekki liggur fyrir í fjármálaáætluninni hvernig fjárveitingum hvers málefnasviðs er skipt niður á einstaka málefnaflokka sem eru rúmlega 200. Því er erfitt fyrir 3. minni hluta að meta hvort fjárheimildir fyrir einstaka málefnasvið séu raunhæfar út frá þeim aðgerðum sem fyrirhugað er að ráðast í. Raunar má telja næsta víst að í mörgum tilfellum dugi fjárveiting ekki fyrir þeim verkefnum og aðgerðum sem ráðuneytin ætla að hrinda í framkvæmd á næstu fimm árum. Þess má vænta að verklagið eigi eftir að slípast og fyrirhuguð verkefni og aðgerðir miðist við það fjármagn sem fyrir hendi er hverju sinni. Slíkt er í raun forsenda þess að hægt sé að tala um raunhæfa stefnumótun, þ.e. að verkefnin séu skilgreind og þeim forgangsraðað út frá þeim fjárheimildum sem hverju málefnasviði eru ætlaðar.

Háskóla­stig.
Það er mikið áhyggjuefni að ekki sé gert ráð fyrir auknu fjármagni í háskólastigið sem neinu nemur á næstu fimm árum. Líkt og á framhaldsskólastigi eru fjárframlög á hvern nemanda lægri en að meðaltali í OECD-ríkjunum og mun lægri en annars staðar á Norðurlöndunum. Það er stefna Vísinda- og tækniráðs að framlag á hvern háskólanema verði sambærilegt við það sem gengur og gerist á Norðurlöndunum árið 2020. Það takmark mun ekki nást nema nemendum í háskólum snarfækki. Margoft hefur komið fram að íslenskir háskólar eru verulega vanfjármagnaðir og munu ekki standast samkeppni um starfsfólk, nemendur og öflun styrkja með sama áframhaldi.
Athygli vekur að ráðherra talar ítrekað um að fjárframlög á hvern nemanda hafi verið hækkuð bæði í framhaldsskólum og í háskólum. Þau hafa þó ekki hækkað í samræmi við þann fjölda nemenda sem verið hefur í skólakerfinu þar sem ekki hefur verið tekið tillit til mikillar fjölgunar nemenda undanfarinna ára. Fjárframlög á hvern nemanda hækka því vart nema skólar takmarki verulega aðgang að námi. Lengi vel var hlutfall háskólamenntaðra hér á landi lægra en í þeim löndum sem við miðum okkur gjarnan við. Svo er ekki lengur en nú virðist eiga að hverfa af þeirri braut og greiða háskólum fjárframlag fyrir færri nemendur en raunverulega stunda nám. Í fjármálaáætlun segir orðrétt: „Til að auka gæði í háskóla- og rannsóknarstarfsemi verður áhersla lögð á að hækka framlög á hvern ársnema í stað þess að auka á umfang kerfisins.“ Ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi en að stjórnvöld telji að hlutfall háskólamenntaðra sé orðið ásættanlegt og nú eigi gagngert að fækka nemendum. Ekki liggur fyrir hvaða námsbrautir eigi undan að láta en slíkt hlýtur að vera pólitísk ákvörðun sem byggist m.a. á mannaflaspám í ólíkum atvinnugreinum ár og áratugi fram í tímann. Bent hefur verið á að skortur sé á raungreina- og tæknimenntuðu fólki en ekkert í fjármálaáætlun til næstu fimm ára gefur til kynna hvernig eigi að bregðast við því. Þá tekur 3. minni hluti undir með Ríkisendurskoðun sem í umsögn sinni bendir á að á sama tíma og gert sé ráð fyrir styttingu náms til stúdentsprófs sé ekki fjallað um það hvernig eigi að bregðast við tvöföldum útskriftarárgangi á háskólastigi sem hlýtur að vera óhjákvæmileg afleiðing af styttingu framhaldskólans.
3. minni hluti gagnrýnir einnig að ekki sé að finna í fjármálaáætlun framtíðarsýn varðandi húsnæðismál Listaháskólans en afar brýnt er að skólinn fái sem fyrst viðeigandi húsnæði.

Fram­halds­skóla­stig.
Hlutfall útgjalda til framhaldsskólastigsins er undir meðaltali OECD-ríkjanna og hafa framhaldsskólar landsins margir búið við þröngan kost mörg undanfarin ár. Samkvæmt fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 12% raunvexti á tímabilinu. Þá er fyrirhugað að sá sparnaður sem næst vegna styttingar náms og minni árganga verði eftir í framhaldsskólakerfinu. Það er jákvætt að fjárframlög til framhaldsskólanna séu aukin og löngu tímabært. Rekstur framhaldsskóla landsins hefur lengi verið þungur og í skýrslu Ríkisendurskoðunar um rekstrarstöðu og reiknilíkan framhaldsskóla frá árinu 2014 kom m.a. fram að rekstur skólanna væri kominn að þolmörkum eftir viðvarandi niðurskurð. Þá var kallað eftir því að reiknilíkan framhaldsskólanna yrði uppfært enda nýttist það ekki eins og til væri ætlast, þ.e. að áætla raunverulegan rekstrarkostnað skólanna og tryggja jafnræði við útdeilingu fjármagns.
Í Hvítbók um umbætur í menntun kemur fram að einungis 14% nemenda skrá sig á starfsnámsbrautir að loknum grunnskóla. Það er mjög lágt hlutfall í samanburði við aðrar þjóðir en hlutfallið er um 50% í ríkjum Evrópusambandsins. Nauðsynlegt er að fjölga nemendum í verknámi eins og ítrekað hefur verið bent á. Ekki liggur þó fyrir hvernig eigi að ná því markmiði og dæmi eru um að skólar hafi ekki getað endurnýjað nauðsynlegan tækjabúnað. 3. minni hluti kallar eftir skýrari stefnu frá stjórnvöldum hvað þetta varðar.
3. minni hluti hefur sett spurningarmerki við það fjármagn sem sett er í sérstakt læsisátak en um er að ræða um 660 millj. kr. á fimm árum. Í ljósi þess að töluvert vantar upp á að fjárveitingar til framhaldsskóla- og háskólastigs nái þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sjálf sett er þessi forgangsröðun gagnrýniverð. Að mati 3. minni hluta ætti læsisátak að rúmast innan fjárheimilda Menntamálastofnunar og grunnskóla landsins.

Rannsókn­ir og þróun.
Gert er ráð fyrir auknu fjármagni í rannsóknir, þróun og nýsköpun sem er mjög jákvætt og að mati 3. minni hluta er stefnan í málaflokknum í heild skynsamleg. Það er þó áhyggjuefni hversu illa styrkir virðast skila sér út fyrir stórhöfuðborgarsvæðið. Sem dæmi má nefna að rúmlega 90% af styrkupphæðum Tækniþróunarsjóðs fóru á höfuðborgarsvæðið og Suðurnes árið 2015. Mikilvægt er að greina hvað býr hér að baki og að stjórnvöld reyni eftir fremsta megni að tryggja að hið opinbera styrkjakerfi á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar nýtist sem víðast á landinu.

Heil­brigðismál.
Á næstu fimm árum er ráðgert að auka fjármagn til þeirra fjögurra málefnasviða sem heyra undir heilbrigðismál um 14% að raunvirði. Vega þar þyngst framkvæmdir við nýjan Landspítala sem er löngu tímabær framkvæmd, bygging sjúkrahótels og tækjakaup. Nauðsynlegt er að efla heilbrigðiskerfið eftir langvarandi niðurskurð og almenn sátt virðist um að heilbrigðismál séu sett í forgang á næstu árum. Björt framtíð minnir á að ekki er síður mikilvægt að nýta vel það fjármagn sem nú þegar fer í heilbrigðiskerfið. Fyrirhugað er að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sem er mjög skynsamlegt en þó er ekki að sjá að meira fé verði sett í málaflokkinn sem neinu nemur næstu fimm árin. Skortur er á heimilislæknum þótt sérnámsstöðum hafi verið fjölgað. Björt framtíð telur að hægt sé að bæta þjónustu og hagræða með því að nýta mun betur þá þekkingu og reynslu sem hinar fjölmörgu heilbrigðisstarfsstéttir búa yfir. Í mörgum tilfellum geta t.d. aðrar starfstéttir en læknar sinnt þeim sem leita til heilsugæslunnar mun meira en nú er víða gert. Sem dæmi um árangursríka þróun á þessu sviði í nágrannalöndum má nefna hjúkrunarfræðinga sem víða hafa leyfi til að ávísa getnaðarvörnum og sjúkraþjálfara sem eru fyrstu meðferðaraðilar varðandi stoðkerfisvanda.
Aukning sjúkdóma sem rekja má til lífsstíls, svo sem rangs mataræðis og hreyfingarleysis, hefur í för með sér gríðarlegan kostnað fyrir heilbrigðiskerfið. Því er í raun óskiljanlegt að ekki sé allt kapp lagt á að hemja þróunina með öllum ráðum og beita forvörnum og snemmtækri íhlutun í stað lyfja þar sem það er hægt. Í Lyfjastefnu til ársins 2020 er m.a. fjallað um mikilvægi forvarna sem lið í því að minnka lyfjanotkun. Þar segir orðrétt: „Sem dæmi má nefna að ef tækist að fækka sjúklingum með sykursýki II um 10% (þ.e. um 1.500 sjúklinga) með hreyfingu og breyttu mataræði myndi beinn kostnaður lækka um 750 millj. kr. á ári. Svipuð dæmi er hægt að nefna um aðra sjúkdóma, s.s. hjarta- og æðasjúkdóma, offitu, þunglyndi, o.fl.“
Björt framtíð telur borðleggjandi að starfsstéttir eins og næringarfræðingar og sjúkraþjálfarar séu hluti af þjónustu heilsugæslunnar og komi t.d. að meðferð allra sjúklinga sem gætu fengið bót meina sinna með því að breyta um mataræði og auka hreyfingu. Markmið um að hreyfiseðlar verði öllum aðgengilegir frá og með árinu 2017 er klárlega skref í rétta átt en að mati 3. minni hluta þyrfti að fara í mjög markvissar aðgerðir þar sem allt kapp verði lagt á að aðstoða fólk við að velja heilsusamlegan lífstíl sem mundi einnig spara fjármagn.
Geðrænir sjúkdómar eru helsta ástæða nýgengi örorku og kosta þjóðfélagið mikið í formi lyfja, læknisþjónustu og tapaðra vinnustunda. Aukið aðgengi sálfræðinga á heilsugæslustöðvum er gott skref sem og samþykkt geðheilbrigðisstefnu en að mati 3. minni hluta þarf meira til. Tryggja þarf aðgengi fólks að þjónustu sálfræðinga á öllum heilsugæslustöðvum landsins. Það er t.d. dýrt fyrir fólk að sækja sálfræðimeðferð sem hluta af meðferð og einnig er mikilvægt að tryggja gott aðgengi að sálfræðingum í framhaldsskólum landsins.
Heilbrigðisþjónusta í fámennu og dreifbýlu landi er áskorun og þróunin hefur verið sú að sérfræðiþjónusta er að mestu leyti bundin við höfuðborgarsvæðið. 3. minni hluti leggur mikla áherslu á að fjarheilbrigðisþjónusta verði nýtt í meira mæli og telur það bæði geta sparað tíma og fjármuni auk þess að bæta þjónustu. Hraða þarf framkvæmd nýrrar áætlunar um fjarheilbrigðisþjónustu.
Ráðgert er að reisa fimm ný hjúkrunarheimili og gert er ráð fyrir framlagi til að styrkja daggjaldagrunn hjúkrunarheimila en rekstur marga þeirra hefur verið afar þungur. Björt framtíð leggur áherslu á að tryggja aðgengi að dvöl á hjúkrunarheimili þegar þörf krefur. Jafnframt er lögð sérstök áhersla á að auka enn frekar heimaþjónustu til eldri borgara enda felur slík þjónusta í sér bæði aukin lífsgæði fyrir einstaklingana og minni kostnað sé miðað við stofnanaúrræði.
Eitt grundvallarviðfangsefni heilbrigðiskerfisins hverju sinni er að tryggja nægan fjölda af hæfu starfsfólki. Menntun og þjálfun skiptir hér máli, laun þurfa að vera samkeppnishæf og starfsumhverfið gott. 3. minni hluti leggur áherslu á að þessir þættir séu í lagi og að á hverjum tíma sé til vönduð mannaflaspá fyrir allar heilbrigðisstarfsstéttir.

Um­hverf­is­mál.
Fjármagn til umhverfismála eykst aðeins lítillega á næstu fimm árum en á sama tíma eru áskoranir í umhverfismálum gríðarlegar. Ísland hefur skrifað undir Parísarsamkomulagið og því skuldbundið sig til að fara í aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Björt framtíð mundi vilja sjá mun metnaðarfyllri umhverfisstefnu og skýrari framtíðarsýn. Þá er mikilvægt að hvötum sé ávallt beitt til að ýta undir að umhverfisvænsta lausnin hverju sinni sé jafnframt sú hagkvæmasta. Til dæmis er nú mun ódýrara að skila lífrænum úrgangi í urðun en að skila honum í jarðgerðarstöð. Ríkið hefur gefið eftir tolla og vörugjöld á bílum sem ganga fyrir raforku, metani eða öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum og er það vel. Þá er sett fjármagn í að byggja upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla um landið og stefnan er að árið 2020 sé hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum 10%. Þetta er mikilvægt skref og vissulega metnaðarfullt þar sem hlutfall slíkra bíla er nú um 1%. Björt framtíð vekur athygli á að þrátt fyrir áform um stóraukið hlutfall bíla sem ganga fyrir endurnýjanlegu eldsneyti er stefna stjórnvalda þegar kemur að bifreiðainnkaupum á vegum ríkisins afar metnaðarlaus. Ríkisstofnunum virðist í sjálfsvald sett hvers konar farkostur er keyptur. Þá eru þeir ráðherrabílar sem keyptir hafa verið undanfarin ár nær allt bílar sem brenna jarðefnaeldsneyti þótt nú sé hægt að velja umhverfisvænni bíla af öllum stærðum og gerðum. Björt framtíð telur grundvallaratriði að ráðherrar ríkisstjórnarinnar og stofnanir ríkisins gangi á undan með góðu fordæmi á þessu sviði sem og öðrum.

Sam­göng­ur.
Í fjármálaáætlun koma fram stefna og fyrirætlanir stjórnvalda eftir tímabilum og því er nauðsynlegt að allar undiráætlanir séu í samræmi við hana. Ein af mikilvægustu áætlunum ríkisins er samgönguáætlun en hún hefur því miður ekki verið samþykkt af Alþingi árum saman. Eins og staðan er nú eru fyrirætlanir stjórnvalda í samgöngumálum mun kostnaðarsamari en gert er ráð fyrir í fjármálaáætluninni. Þar sem fjármálaáætlunin er ráðandi mun að öllum líkindum ekki verða unnt að fjármagna öll þau samgönguverkefni sem nú liggja fyrir í drögum samgönguáætlunar. Einhverjum þeirra verður slegið á frest þar til fjármögnun liggur fyrir. 3. minni hluti gagnrýnir stjórnvöld fyrir að starfa að þessu leyti ekki í samræmi við lög um opinber fjármál en í þeim er lögð rík áhersla á að styrkja áætlanagerð, stjórnun og eftirlit ríkisins til að bæta nýtingu skattfjár. Að mati 3. minni hluta er það ekki í samræmi við góða og vandaða stjórnsýslu og að styrkja umgjörð ríkisfjármálanna ef síðan er áfram starfað eftir úreltum starfsvenjum sem ætlun allra var að leggja af.
Álag á vegi landsins hefur aukist mikið á undanförnum árum sem kallar á auknar framkvæmdir og viðhald. Fyrir liggur að viðhaldi á vegakerfinu er stórlega ábótavant. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðarinni er árlegur kostnaður við nauðsynlega endurnýjun bundinna slitlaga áætlaður 2,8 milljarðar kr. á verðlagi 2014. Ef uppsöfnuð þörf fyrir klæðningar og malbik væri unninn upp á næstu fimm árum væri áætlaður kostnaður við það um 2,2 milljarðar kr. á ári. Til þess að ná bundnum slitlögum á vegakerfinu í ásættanlegt horf á árunum 2015–2019 þarf því árlega 5,1 milljarð kr. Er þá ótalin þörf fyrir viðhald malarvega og brúa. Því er ljóst að fjármagn til viðhalds er allt of lítið. Þá er athyglisvert að þrátt fyrir aukið álag á vegi landsins og brýna þörf á uppbyggingu og viðhaldi hafa framlög til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu lækkað frá árinu 2013 eins og sjá má á eftirfarandi yfirliti.

 
Ferðaþjón­usta.
Stóraukinn ferðamannastraumur til landsins hefur skapað miklar gjaldeyristekjur og á töluverðan þátt í því hversu vel hefur gengið að snúa vörn í sókn eftir efnahagshrunið haustið 2008. Þessari miklu fjölgun fylgja margvíslegir vaxtaverkir og því má halda fram að markvissa stefnu hafi skort í þessum málaflokki síðustu ár og jafnvel áratugi. Þannig hefur t.d. mun minna fjármagni verið varið í þessa mikilvægu atvinnugrein en aðrar sem þó leggja jafnvel ekki jafnmikið til þjóðarframleiðslunnar. Árið 2013 voru heildarframlög til rannsókna í ferðaþjónustu 170 millj. kr. en þetta sama ár voru framlög til rannsókna í sjávarútvegi um 2,9 milljarðar kr, í landbúnaði 922 millj. kr. og í iðnaði 1,3 milljarðar kr. Vissulega getur þörfin fyrir rannsóknir verið mismunandi milli atvinnugreina en þessi munur er þó að mörgu leyti sláandi. Samkvæmt fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 500 millj. kr. í rannsóknir í ferðaþjónustu næstu fimm árin sem þýðir minni framlög en undanfarin ár.
Stóraukinn ferðamannastraumur setur þrýsting á uppbyggingu innviða og stóraukna þjónustu á ýmsum sviðum svo sem löggæslu, tollgæslu og heilbrigðisþjónustu. Ekki er að sjá að framlög til þessara málaflokka hafi verið aukin í samræmi við þann aukna fjölda sem ferðast til landsins og keyrir á vegum úti. Aukið fjármagn verður sett í framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem er mjög jákvætt auk þess sem mikilvægt var að breyta úthlutunareglum sjóðsins til að koma á móts við sveitarfélögin. Gerð hefur verið úttekt á salernisaðstöðu fyrir ferðamenn þar sem fram kemur að aðstaðan er víða óboðleg og brýnt að grípa strax til aðgerða. Áætlanir gera ráð fyrir aukningu í málaefnasviðið Ferðamál en framlög hafa verið nokkuð rokkandi. Áætlað er að verja 2,3 milljörðum kr. í málefnasviðið árið 2017 og helst sú upphæð fram til 2020 þegar framlög lækka um 300 millj. kr.
3. minni hluti telur að ekki sé lengur þörf á ívilnandi aðgerðum fyrir ferðaþjónustuna, svo sem að hafa gistingu í lægra virðisaukaskattsþrepi. Ríkisstjórninni er tíðrætt um skilvirkni í skattkerfinu og vill 3. minni hluti því benda á að það væri mun einfaldari skattlagning að hækka virðisaukaskatt á gistingu í efra þrep og sleppa gistináttagjaldi sem skilar litlu í ríkissjóð en er gjald sem krefst töluverðrar umsýslu. Margar atvinnugreinar búa við 24% virðisaukaskatt á sína starfsemi og erfitt er að réttlæta að ferðaþjónustan eigi að vera undanskilin. Ef efra þrep þykir of íþyngjandi fyrir ferðaþjónustuna hlýtur sú spurning að vera áleitin hvort efra þrepið sé þá ekki of hátt fyrir íslenskt atvinnulíf yfirhöfuð.

Skuld­astaða og vaxta­kostnaður.
Skuldir ríkisins voru 1.338 milljarðar kr. í árslok 2015. Samkvæmt fjármálaáætlun er fyrirhugað að greiða niður lán á næstu árum, m.a. með stöðugleikaframlagi og óreglulegum tekjum svo sem arðgreiðslum og sölu á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Áætlað er að vaxtagreiðslur verði 58,5 milljarðar kr. á árinu 2021 og hlutfall skulda af landsframleiðslu verði komið niður í 30% innan þriggja ára. Björt framtíð er hlynnt þessum áformum og telur mjög mikilvægt að greiða niður lán eins og kostur er enda hafa vaxtagreiðslur ríkisins verið mjög íþyngjandi en þær voru hæstar 84 milljarðar kr. árið 2009. Þá þarf ekki að fjölyrða um þá áhættu sem þung skuldastaða getur haft fyrir ríki, sérstaklega ef aðstæður verða óhagstæðar, svo sem vegna versnandi lánakjara eða samdráttur.

Lí­f­eyr­is­skuld­bind­ing­ar.
Fyrirhugað er að greiða inn á lífeyrisskuldbindingar ríkisins vegna B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins frá og með árinu 2017. Ófjármagnaðar skuldbindingar B-deildar námu 435 milljörðum kr. í lok árs 2014 og ef ekkert yrði að gert færi sjóðurinn í þrot árið 2030. Þessi staða er óviðunandi og staðreyndin er sú að vandanum hefur verið ýtt áfram inn í framtíðina allt of lengi. Það er því ekki seinna vænna að hefja greiðslur inn á þessar skuldbindingar til að minnka þá áhættu sem skattgreiðendur standa frammi fyrir ef sjóðirnir tæmast. Unnið er að samræmingu lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði sem er að mati 3. minni hluta afar mikilvægt. Þá er ráðgert að hækka eftirlaunaaldur úr 67 árum upp í 70 ár sem er nauðsynlegt í ljósi hækkandi lífaldurs en ekki er gert ráð fyrir að hækkunin taki að fullu gildi fyrr en eftir 24 ár. Þessi breyting þarf að ganga mun hraðar í gegn þótt vissulega sé eðlilegt að hún fari fram í skrefum og á einhverjum árum.

Fjár­fest­ing.
Dregið var verulega úr fjárfestingum ríkissjóðs til að mæta afleiðingum hrunsins og sveitarfélögin hafa ekki haft mikla fjárfestingargetu. Opinber fjárfesting nam um 3,1% af vergri landsframleiðslu árið 2014 og 2,9% árið 2015 eða um 64 milljörðum kr. Til samanburðar nam hún að meðaltali um 4% af vergri landsframleiðslu á árunum 1998–2008. Gert er ráð fyrir að hún nemi um 2,3% á árunum 2020–2021 sem er einungis ríflega helmingur þess sem hún var á 10 ára meðaltali áranna fyrir hrun. Að undanförnu hefur myndast mikil þörf fyrir innviðafjárfestingu, m.a. vegna aukins straums ferðamanna til landsins. Á sama tíma hefur eðlilegt viðhald innviða verið vanrækt og víða svo komið að mjög dýrt verður að endurbyggja vegi og mannvirki verði þeim ekki haldið við á næstunni. Í fjárfestingaráætluninni virðist ekki svigrúm til að taka á fjárfestinga- og viðhaldsvandamálinu sem getur skaðað hagvöxt í framtíðinni og þannig unnið gegn eðlilegum markmiðum fjármálaáætlana í framtíðinni.

Skatt­ar og tekj­ur.
Tekjuskattsþrepum hefur verið fækkað úr þremur í tvö. Að mati 3. minni hluta hefur stjórnarmeirihlutinn misst sjónar á því mikilvæga hlutverki sem tekjuskattskerfið þjónar til tekjujöfnunar í samfélaginu, ásamt því að vera kerfi til tekjuöflunar. Fækkun þrepa í tekjuskatti gengur á svig við það markmið að auka jöfnuð í samfélaginu. Einföldun skattkerfisins er mikilvægt verkefni, en að mati 3. minni hluta er mikilvægara að ná því markmiði í virðisaukaskattskerfinu. Réttlætanlegt er að fórna eilítið því markmiði þegar kemur að tekjuskattskerfinu, í þágu aukins jöfnuðar, þótt vissulega sé mikilvægt að kerfið sé ekki flókið eða ógagnsætt.
Ísland er ríkt af auðlindum. Það er með ólíkindum að sú opinbera stefnumörkun hafi ekki farið fram að innheimta í auknum mæli tekjur af auðlindanotkun. Stjórnarmeirihlutinn hefur raunar haldið í þveröfuga átt hvað þetta varðar og dregið úr gjöldum fyrir afnot af auðlindum. Náttúra Íslands er til að mynda viðkvæm auðlind sem ferðamenn vilja gjarnan njóta. Það er fullkomlega eðlilegt að hið opinbera sæki sér umtalsverðar tekjur til þessarar auðlindanotkunar sem hægt væri að nýta til nauðsynlegrar uppbyggingar á innviðum ferðaþjónustu. Þá er gjald fyrir afnot af sjávarauðlindum í mýflugumynd hér á landi. Ljóst er að mati 3. minni hluta að tekjur hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, af orkusölu geta aukist mjög ef látið verður af þeirri stefnu, sem hér hefur ríkt um langt árabil, að stórkaupendum í stóriðju sé seld orkan á allt of lágu verði.

Sveitarfélög.
Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög hafa gert með sér samkomulag, sem byggist á lögunum, um að hið opinbera vinni sameiginlega að ábyrgri hagstjórn og stjórn opinberra fjármála. Markmiðið er að heildarafkoma A-hluta sveitarfélaga verði í jafnvægi og að skuldir þeirra sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hækki ekki. Þá er markmiðið að halda aftur af fjárfestingaráformum opinberra aðila sem gætu aukið spennu í hagkerfinu.
Þá hefur hið opinbera sett sér það markmið að afgangur af starfsemi þess verði a.m.k. 1% af landsframleiðslunni. Þar sem staða sveitarfélaga mun ekki breytast sem nokkru nemur mun afkoma ríkisins batna og vaxa sem hlutfall af nafnvexti vergrar landsframleiðslu. Gangi þetta eftir mun afgangur hins opinbera nema 25 milljörðum kr. árið 2017 og 31 milljarði kr. árið 2021.
Skuldastaða sveitarfélaganna er áhyggjuefni. Á meðan ríkið verður rekið með afgangi næstu fimm ár samkvæmt áætluninni mun hagur sveitarfélaga ekki vænkast sem neinu nemur. Sveitarfélög hafa gagnrýnt með hvaða hætti tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga er háttað auk þess sem ýmis verkefni sem sveitarfélögin hafa tekið yfir hafa haft í för með sér meiri kostnað en fyrirhugað var. 3. minni hluti telur brýnt að farið verði ofan í saumana á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
Íbúðalána­sjóður.
Stefna stjórnvalda varðandi Íbúðalánasjóð er nokkuð óljós. Í fjármálaáætlun segir m.a. að útistandandi ríkisábyrgðir vegna sjóðsins nemi tæplega 900 milljörðum kr. og að ríkissjóður hafi þegar lagt sjóðnum til 50 milljarða kr. á undanförnum árum. Eiginfjárhlutfall sjóðsins er yfir 5% viðmiðunarmarki og því ekki talin þörf á að leggja honum til meiri framlög á næstu fimm árum. Þá segir að sjóðurinn geti ekki talist sjálfbær til lengri tíma og því sé vilji til að loka honum sem kynni að kalla á einskiptis framlag úr ríkissjóði. 3. minni hluti gagnrýnir þá óljósu framtíðarsýn sem stjórnvöld hafa varðandi Íbúðarlánasjóð. Nauðsynlegt er að stjórnvöld móti sjóðnum skýra sýn til framtíðar eða leggi til aðrar lausnir sem tryggja að á húsnæðismarkaði sé á hverjum tíma til staðar lánveitandi sem veitir lán til kaupa á hóflegu íbúðarhúsnæði.

Aldraðir og ör­yrkj­ar.
Samkvæmt áætluninni verða málefni aldraðra og öryrkja í brennidepli. Ákveðin markmið eru tiltekin, svo sem að framfærsla fólks verði tryggð meðan á endurhæfingu stendur og að staða ungra öryrkja verði bætt sem og kjör þeirra öryrkja sem einungis treysta á örorkulífeyri sér til framfærslu. Í áætluninni er vísað til nýs frumvarps um almannatryggingar sem ekki hefur verið lagt fram þegar þetta er skrifað þannig að 3. minni hluti getur ekki lagt mat á það hvernig sú löggjöf samrýmist þeirri stefnumótun sem fram kemur í áætluninni.
3. minni hluti leggur ríka áherslu á að elli- og örorkulífeyrir dugi til framfærslu. Innan þessara hópa eru aðstæður auðvitað mismunandi. Margir ellilífeyrisþegar eiga skuldlausa fasteign og njóta jafnvel góðra lífeyriskjara en þar getur skipt máli hvort viðkomandi hafi unnið hjá hinu opinbera eða á almennum markaði og í hvaða sjóð hefur verið greitt. En jafnframt er umtalsverður hópur ellilífeyrisþega sem ekki á til hnífs og skeiðar. Það er óásættanlegt að það öryggisnet sem við höfum reynt að skapa skuli ekki grípa þá sem verst standa, hvort sem það eru ellilífeyrisþegar eða öryrkjar og úr því þarf að bæta strax.
Undir málefnum fatlaðs fólks eru tiltekin helstu markmið. Til dæmis er ráðgert að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) sem er mikilvægt en verkefnið hefur verið rekið sem tilraunaverkefni fram til þessa. Auka á framboð húsnæðis og tryggja að þjónustan verði heildræn og samþætt. Ekki er enn búið að lögfesta sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem er sögð framtíðarsýn málaflokksins. Björt framtíð leggur mikla áherslu á að lögfestingu verði lokið sem fyrst.

Barna­bæt­ur.
Ekki stendur til að hækka barnabætur og stefnt er að því að endurskoða barnabótakerfið með meiri einföldun og skilvirkni í huga. Ekki er farið ítarlega í þær útfærslur sem eru fyrirhugaðar en vísað í úttekt OECD sem unnin var fyrir ráðuneytið. Svo virðist sem bæturnar verði einungis hugsaðar fyrir allra tekjulægstu fjölskyldurnar. Umgjörðin um barnafólk á Íslandi og stuðningur við fjölskyldur er alls ekki nógu góður og skyldi engan undra hversu margar fjölskyldur flytja til annarra Norðurlandaríkja sem byggt hafa upp mun fjölskylduvænni samfélög. Björt framtíð telur það algert grundvallaratriði að vel sé búið að fjölskyldum og í raun óskiljanlegt hvað við erum miklir eftirbátar annarra ríkja á Norðurlöndum í þessum efnum. Það að barnabætur verði einungis hugsaðar fyrir allra tekjulægstu fjölskyldurnar er óviðunandi framtíðarsýn.

Land­búnaður.
Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að nýir búvörusamningar til tíu ára taki gildi í ár. Björt framtíð vill tryggja öflugan og fjölbreyttan landbúnað á Íslandi en að landbúnaðarstefnan taki jafnframt tillit til hagsmuna neytenda. Í svo mikilvægu máli sem snertir hagsmuna margra og skuldbindur ríkissjóð mörg ár fram í tímann verða helstu hagsmunasamtök og stofnanir ríkisins að koma að gerð samninganna. Björt framtíð leggur til að málinu verði vísað frá í heild og núverandi samningar framlengdir á meðan unnið er að nýjum samningum sem meiri sátt ríkir um.

Skuld­aniður­fell­ing.
Björt framtíð var alfarið á móti skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar og telur að þá 80 milljarða kr. sem dreift var til ákveðinna heimila hefði mátt nýta með skynsamlegri hætti. Uppsöfnuð þörf fyrir uppbyggingu ýmissa innviða er orðin gríðarlega aðkallandi eftir niðurskurð áranna eftir hrun. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa sumir tekið undir þau sjónarmið að meira fé vanti til viðhalds og verkefna í mikilvægum málaflokkum svo sem í vegamálum og menntamálum og þá var áformum um uppbyggingu nýs Landspítala frestað í upphafi kjörtímabilsins þar sem ekki var til „fjármagn fyrir steypu“ eins og það var orðað. 3. minni hluti vill því árétta að ráðherrar í ríkisstjórninni ákváðu sjálfir að forgangsraða fjármunum á þann hátt að niðurgreiða tilviljanakennt verðtryggð húsnæðislán án tillits til eignastöðu fólks. Fjármunum sem ella hefðu nýst heimilunum í landinu í formi sterkari innviða, traustara heilbrigðiskerfis og öflugra menntakerfis. Nefna má að bara umsýslukostnaðurinn við þessa flóknu aðgerð er um 600 millj. kr. en það er hærri upphæð en áætlað er að setja í geðheilbrigðisáætlun til fjögurra ára svo dæmi sé tekið.
Því má eflaust halda fram að það sé að bera í bakkafullan lækinn hjá 3. minni hluta að gagnrýna þessa ráðstöfun ríkisfjármála þegar aðgerðinni er lokið. Staðreyndin er hins vegar sú að ef fjármunum hefði verið varið með öðrum hætti væru innviðir samfélagsins traustari.

Veik­leik­ar.
Fyrir utan þá gagnrýni á tiltekin málefnasvið sem 3. minni hluti hefur útlistað er rétt að benda á veikleika fjármálaáætlunar heilt yfir. Búist er við áframhaldandi hagvexti út allt tímabilið sem er ef til vill ekki raunhæft auk þess sem sala eigna (hlutur ríkisins í fjármálafyrirtækjum) og útgreiðsla arðs er forsenda þess að hægt verði að lækka skuldir ríkisins svo einhverju nemi. Fyrirhugað er að brúttóskuldir fari úr 50% af vergri landsframleiðslu í 32% árið 2021. Jafnvel þótt þær áætlanir gangi eftir yrði vaxtakostnaður ríkisins eftir sem áður umtalsverður eða um 40 milljarðar kr. á ári.
Bent hefur verið á að fjármálastefnan þyrfti að styðja betur við peningamálastefnu Seðlabankans. Undirliggjandi þensla er í hagkerfinu en lágt olíu- og hrávöruverð hefur haldið verðbólgunni í skefjum auk þess sem krónan hefur styrkst. Björt framtíð tekur undir þessar áhyggjur. Það er vissulega áskorun að stýra efnahagsmálum á þenslutíma þegar jafnframt er gríðarleg þörf fyrir uppbyggingu innviða. Þá sýnir reynslan að efnahagsstjórn á þenslutímum getur verið mun erfiðari en á krepputímum.
Það er athyglisvert hversu litlar kerfisbreytingar hafa verið gerðar í tíð þessarar ríkisstjórnar. Vissulega hafa einstaka stofnanir verið sameinaðar, stundum með ærnum tilkostnaði og framhaldsskólinn styttur en sú breyting var keyrð í gegn án mikils samráðs eða undirbúnings. Sparnaðaráform hafa að mestu einkennst af flötum niðurskurði í stað þess að kafað sé ofan í málaflokka og hlutirnir hugsaðir upp á nýtt. Það sem hugsanlega stendur því fyrir þrifum að oftar sé ráðist í gagngerar endurbætur á einstaka sviðum er sú staðreynd að of algengt er að ný ríkisstjórn hætti við verkefni sem mikil vinna hefur verið lögð í. Þá er allt of lítil hefð fyrir því að í mikilvægum stefnumálum sé gerð tilraun til að ná þverpólitískri sátt þótt á því séu vissulega undantekningar. Með lögum um opinber fjármál er vonandi fest í sessi langtímahugsun og vönduð vinnubrögð við stefnumótun sem nær út fyrir kjörtímabil og setu einstakra ráðherra.

Alþingi, 17. ágúst 2016.

Bryn­hild­ur Pét­urs­dótt­ir.